Ríkið gæti gert kröfu á kaþólsku kirkjuna

Landakotsskóli.
Landakotsskóli. Jim Smart

Til greina kemur að ríkið geri kröfu á hendur kaþólsku kirkjunni ef til þess kemur að það greiði fórnarlömbum starfsmanna Landakotsskóla sanngirnisbætur. Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti flutningsmaður frumvarps sem kveður á um að ráðherra fái heimild til að greiða slíkar bætur.

Auk Ögmundar standa fimm þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi að frumvarpinu sem var lagt fram fyrir helgi. Það veitir innanríkisráðherra heimild til þess að greiða sanngirnisbætur vegna brota sem framin voru gegn nemendum Landakotsskóla.

„Enda þótt Landakotsskóli sé einkaskóli og standi í þeim skilningi utan ríkisreksturs þá er skólinn hluti af almennu skólaskyldukerfi. Þar vaknar ábyrgð ríkisins og vísa ég þá í sambærileg mál á Írlandi þar sem ríkið hefur axlað ábyrgð á málum sem upp hafa komið í einkaskólum af skyldutagi. Ábyrgðin er náttúrlega okkar allra sem samfélags að láta þessi börn njóta sambærilegra mannréttinda og önnur með hliðsjón af sanngirnisbótum,“ segir Ögmundur spurður að því hvers vegna ríkið ætti að greiða bætur vegna brota starfsmanna einkafyrirtækis.

Frumvarpið byggist á niðurstöðum skýrslu sem kaþólska kirkjan lét gera um misgjörðir starfsmanna sinna í Landakotsskóla. Ögmundur segir að skýrslan sé ágæt að mörgu leyti að sögn þeirra sem vel til þekkja. Hins vegar skorti upp á viljann hjá kirkjunni til þess að framfylgja því sem þar kemur fram með sanngirnisbótum.

„Hvað sem mönnum finnst um sanngirnisbætur sem leið til að bæta einstaklingum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir þá eru þær veruleiki. Þar hefur verið sett viðmið í þjóðfélaginu sem verður að gilda um alla,“ segir Ögmundur.

Ámælisvert að kirkjan axli ekki ábyrgð sína

Hann segist ekki geta sagt til um hvort að með því að ríkið taki að sér að greiða sanngirnisbætur í þessu máli sé skapað fordæmi þar sem aðrar stofnanir sem mögulega verði sakaðar um viðlíka brot í framtíðinni geti vikið sér undan að bæta fórnarlömbum skaðann í trausti þess að ríkið muni taka það að sér.

„Það getur vel verið að það sé ekki með öllu illt fordæmi ef svo er. Það ámælisverða í þessu máli er náttúrlega að kirkjan skuli ekki axla ábyrgð sína. Ég held að hún sé ekkert laus við umræðu um þau mál. Hún þarf náttúrlega að horfa inn á við í þessum efnum. Þá einnig hvernig hún ætlar að vera hluti af okkar samfélagi því það er hún ekki. Hún kýs að standa þarna utan þess sem almennt er viðurkennt í þjóðfélaginu. Ég held að það sé almennur vilji fyrir því að láta réttlætið ná til þessara barna enda ber þessi þverpólitíska samstaða um málið þess vott,“ segir þingmaðurinn.

Telji ríkið ástæðu til þess að greiða fórnarlömbum brota sem starfsmenn Landakotsskóla frömdu sanngirnisbætur má spyrja hvort ríkið geti mögulegt gert kröfu á kaþólsku kirkjuna á móti.

„Mér finnst það vera ríkisvaldsins að meta það en sjálfum finnst mér það ekki fráleitur kostur. Fyrst er að ganga frá þessu við fórnarlömbin. Síðan gæti hitt orðið hluti af einhvers konar uppgjöri ríkis og kaþólsku kirkjunnar. Mér finnst það að mörgu leyti góð hugmynd,“ segir Ögmundur, spurður hvort að til greina komi að gera slíka kröfu á kirkjuna.

Frumvarp um sanngirnisbætur til fórnarlamba starfsmanna Landakotsskóla

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert