Ungmenni sótt af foreldrum

AFP

Lögreglan hafði afskipti af sautján ára ökumanni í Lækjargötu í gærkvöldi. Hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Þrjú ungmenni voru farþegar í bifreiðinni, þar af tvö sautján ára og sá þriðji átján ára. Haft var samband við foreldra þeirra og málið afgreitt með aðkomu þeirra.

Um áttaleytið í gærkvöldi voru höfð afskipti af þremur mönnum á heimili í miðborginni vegna hávaða.

Megna kannabislykt lagði frá íbúðinni er lögreglumenn komu á vettvang og lagði lögregla hald á fíkniefni á vettvangi.

Ölvaður á 108 km hraða á Hafnarfjarðarvegi

Um eittleytið í nótt stöðvaði lögreglan bifreið á Hafnarfjarðarvegi á móts við Hamraborg eftir hraðamælingu en bifreiðinni var ekið á 108 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og látinn laus að lokinni upplýsinga- og sýnatöku.

Afskipti voru höfð af ökumanni bifreiðar í Breiðholti um tvöleytið í nótt. Ökumaðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu, var án ökuréttinda, þ.e. hafði ekki endurnýjað ökuréttindi sín, og bifreiðin ótryggð og skráningarmerki því fjarlægð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert