Yfir 3.000 deila „private“ mynd

Myndin sem fór á Snapchat.
Myndin sem fór á Snapchat.

„Þetta er „PRIVATE“ Snapchat-mynd,“ stendur skýrum stöfum á skiltinu sem Rakel Tanja Bjarnadóttir heldur á en engu að síður hafa tugir þúsunda, ef ekki fleiri, séð myndina.

Rakel sendi myndina um klukkan hálftvö í dag þegar hún var að kenna hópi í 5. bekk Álftanesskóla í faginu Lýðræði og mannréttindi. Rakel er meistaranemi í menntavísindum og sinnir forfallakennslu við skólann. 

„Ég sendi hana á eins og 15 vini mína og var ekki búin að tala við neinn áður,“ segir Rakel Tanja sem segist jafnvel hafa gleymt að vista myndina hjá sér áður en hún var send. Hún segir nemendur sína hafa verið sannfærða um að enginn myndi sjá myndina nema þeir sem Rakel sendi myndina á. Einnig var rætt hversu margar deilingar myndin fengi ef hún færi á Facebook og töldu nemendurnir að hugsanlega myndu allt upp í 17 notendur deila henni.

„Ég hugsaði að ef ég fengi 100 deilingar væri markmiðinu náð,“ segir Rakel og hlær. Vinur hennar, Bjarni Dagur Karlsson, skellti myndinni á Facebook og hefur henni nú verið deilt vel yfir 3.000 sinnum á síðustu fimm klukkutímunum. Þá hafa hátt í 300 deilt myndinni frá facebooksíðu Rakelar sjálfrar. 

Sé gert ráð fyrir því að 10 manns sjái myndina hjá þeim hátt í 3.500 manns sem hafa deilt henni hafa um 35 þúsund séð hana í heild. Facebooknotendur eiga hins vegar margir hverjir yfir 1.000 facebookvini og væri því jafnvel nær lagi að telja að u.þ.b. 100 manns hafi séð myndina eftir hverja og eina deilingu. Þó svo að facebookvinir notenda skarist mikið hér á landi er auðvelt að ímynda sér að myndin hafi nú þegar borist til vel yfir 100 þúsund notenda enda segir Rakel hana löngu flogna út fyrir landsteinana.

„Ég veit til þess að hún hafi farið til Kanada, Texas, Indlands og Tíbets,“ segir Rakel. „Ég er búin að fara hringinn og gott betur.“

Vitund og virðing

Rakel segir að þó svo að nemendur sínir séu fæstir með Facebook séu þau öll með Snapchat og að mikilvægt sé að þau geri sér grein fyrir mætti netsins.

„Markmiðið var að þau áttuðu sig á því að maður veit aldrei hvað verður um það sem maður setur á netið. „Private“ er ekki alltaf „private“ og það þarf að hugsa málið lengra. Svo vildi ég líka kenna þeim að bera virðingu hvert fyrir öðru og taka ekki skjáskot af öðrum án leyfis," segir Rakel og bendir á að þrátt fyrir að tilrauninni ljúki að viku liðinni geti vel verið að hún skjóti aftur upp kollinum löngu seinna. Hún segir að það myndi ekki stoða að reyna að halda krökkunum alfarið frá netinu.

„Ég ætla ekki að banna þeim að nota netið, ég vil frekar kenna þeim réttu leiðirnar til að nota það.“

Rakel Tanja ákvað að stíga út fyrir kassann í kennsluaðferðum …
Rakel Tanja ákvað að stíga út fyrir kassann í kennsluaðferðum í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert