„Ég er svo reið“

Rakel Árnadóttir er ekki sátt við Ferðaþjónustu fatlaðra.
Rakel Árnadóttir er ekki sátt við Ferðaþjónustu fatlaðra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Þangað til í dag hélt ég að kerfið væri að lagast,“ segir Rakel Árnadóttir, en hún missti af tíma hjá sjúkraþjálfara fyrr í dag vegna klúðurs í kerfi Ferðaþjónustu fatlaðra. Þegar Rakel hringdi í þjónustuver ferðaþjónustunnar til að spyrjast fyrir um ferðina, fimm mínútum eftir að tími hennar átti að hefjast, kom í ljós að pöntunin hafði týnst í kerfinu. Það þykir nokkuð sérstakt þar sem þessi ferð Rakelar er svokölluð „föst ferð“ sem hún fer í tvisvar í viku, allan ársins hring. Hefur ferðin verið föst í kerfinu í fjögur eða fimm ár og er það aðeins Rakel sem getur afpantað ferðina.  

Ferðaþjónusta fatlaðra, sem rekin er af Strætó, hefur verið í brennidepli síðustu mánuði eftir að rekstrinum var breytt. Bæði hafa ferðir verið að koma of seint, of snemma eða alls ekki, en jafnframt hafa vaknað upp spurningar um öryggi farþeganna sérstaklega eftir að þroskaskert stúlka gleymdist í bíl ferðaþjónustunnar í nokkrar klukkustundir í síðasta mánuði. 

„Ég á að fara í æfingar á þriðjudögum og föstudögum klukkan 13:30 hjá sjúkraþjálfara. Þetta er það eina sem heldur bakinu mínu í lagi eftir slys sem ég varð fyrir fyrir tæpum fimmtán árum,“ segir Rakel en hún fékk heilahimnubólgu tíu daga gömul sem varð til þess að hún fékk heila­löm­un (Cerebral Pal­sy). Hún er bund­in við hjóla­stól og þarf aðstoð við all­ar dag­leg­ar þarf­ir. „Svo þegar ég hringdi var bara sagt: „Þú ert ekki í kerfinu“ þrátt fyrir að ég sé búin að vera skráð fyrir þessari ferð á þessum degi á þessum tíma í mörg ár,“ segir Rakel.

Orðin þreytt á ástandinu

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ferðaþjónusta fatlaðra klúðrar ferðum Rakelar og er hún orðin þreytt á ástandinu. „Ég er svo reið,“ segir Rakel. „Ég missti af tímanum í dag og svo var sjúkraþjálfarinn að hringja í mig til að láta mig vita að það verða ekki æfingar á föstudaginn því hann er að fara á ráðstefnu. Það er engin leið fyrir mig til þess að fá aukatíma þar sem það er allt uppbókað hjá honum,“ segir Rakel en þegar hún nær ekki að gera æfingarnar sínar stífnar hún upp og finnur til í bakinu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ferðaþjónusta fatlaðra klúðrar ferðum Rakelar. Í desember var sagt frá því hvernig Rakel missti af fyrstu lögunum á tónleikum Stefáns Hilmarssonar, en bíllinn sem kom að sækja Rakel til að fara með hana á tónleikana var venjulegur leigubíll, en ekki bíll sem tekur hjólastóla. 

„Ég hef ekki áður misst af tíma í sjúkraþjálfun út af Ferðaþjónustu fatlaðra en fyrr í vetur mætti ég hálftíma of seint í tíma sem er 45 mínútur,“ segir Rakel sem segir þetta einnig fjárhagslegt tjón en hún borgar sjálf fyrir tímana.

Kvíðir fyrir að nota þjónustuna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert