Hvalaskoðun er ekki líkleg til að hafa langvarandi neikvæð áhrif á hrefnur

Hrefnur má finna víðs vegar í kring um landið, m.a. …
Hrefnur má finna víðs vegar í kring um landið, m.a. í Faxaflóa. Skapti Hallgrímsson

Hvalaskoðun er ekki líkleg til þess að hafa langvarandi neikvæð áhrif á lífslíkur hrefna samkvæmt rannsókn sem Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, og samstarfsfólk hennar vann nýverið.

Í grein sem birtist um rannsóknina í vísindatímaritinu The Journal of Wildlife Management kemur fram að fylgst hafi verið með hegðun hrefna í Faxaflóa í sumrin 2008-2013. Var það gert með tvennum hætti. Annars vegar úr Garðskagavita þar sem notaður var svokallaður sjónhornamælir og sjónaukar til verksins og hins vegar um borð í hvalaskoðunarbát þar sem myndavélar voru m.a. notaðar til að meta fjarlægð bátsins frá hrefnu. 

Hegðun hrefnanna ólík við mismunandi aðstæður

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hegðun hrefnanna væri ólík við þessar mismunandi aðstæður og að ferðir hvalaskoðunarbáta hefðu áhrif á hrefnur í leit að æti.

Með því að notast við frekari gögn, meðal annars ljósmyndagreiningu þar sem hægt er að bera kennsl á einstakar hrefnur, komst rannsóknarhópurinn hins vegar að því að hvalaskoðunarbátar rekast ekki mjög oft á sömu einstaklingana og því eru heildaráhrif hvalaskoðunar á fæðuhegðun hrefnanna ekki mikil. Rannsóknahópurinn ályktaði því að hvalaskoðun í núverandi mynd væri ekki líkleg til þess að hafa langvarandi neikvæð áhrif á lífslíkur dýranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert