Sérsveitin yfirbugaði konuna

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út fyrir hádegið í dag til að aðstoða lögregluna á Selfossi. Samkvæmt heimildum mbl.is eru lögregluaðgerðir í gangi við fjölbýlishús á Selfossi. Lögreglan verst allra frétta af aðgerðinni en staðfesti við mbl.is að sérsveitin væri í bænum.

Fréttin verður uppfærð þegar frekari upplýsingar fást.

Uppfært klukkan 12.41

Samkvæmt heimildum mbl.is var tilkynnt um vopnaða konu á svölum fjölbýlishúss við Aðaltjörn. Konan er vopnuð haglabyssu og miðar henni á gangandi vegfarendur. Lögregla er á svæðinu og hefur lokað nokkuð stóru svæði í kringum fjölbýlishúsið.

Uppfært klukkan 13.00

Blaðmaður mbl.is á vettvangi segir að umsátursástand standi enn yfir. Þrír sérsveitarmenn í fullum skrúða standa við dyr íbúðar konunnar. Mögulega ætla þeir sér að ráðast inn.

Uppfært klukkan 13.20

Konan hefur verið yfirbuguð og flutt á brott.

Uppfært klukkan 13.21

Tilkynning frá lögreglunni: „Klukkan 10:21 barst lögreglu tilkynning um konu í bíl sem ók upp að ungum karlmanni á Langholti á Selfossi, stöðvaði bíl sinn og miðaði skammbyssu að manninum og hvarf síðan á braut. Bíll konunnar fannst mannlaus skömmu síðar fyrir utan íbúðablokk á Selfossi. Lögreglumenn höfðu sjónpóst á húsinu meðan beðið var eftir liðsafla sérsveitar ríkislögreglustjóra. Skömmu áður hafði konan beint byssu að öðrum manni á Árvegi.

Gerðar voru áætlanir um að ná til konunnar og gripið til allra öryggis- og viðbragðsáætlana eins og gert er í tilvikum sem þessum. Klukkan 12:56 gekk konan lögreglu á hönd. Konan var handtekin og aðgerðum lögreglu á staðnum lauk þar með. Málið er nú í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurlandi sem rannsakar málið.

Uppfært klukkan 13.25

Blaðamaður mbl.is á vettvangi ræddi við nágranna konunnar eftir að hún var handtekinn. Sá sagði að oft bærist nokkur hávaði frá íbúð konunnar og hefði verið um langa hríð. Hins vegar hefði ekkert í líkingu við þetta komið upp áður og ekkert sem benti til þess að það gæti gerst. Þá sagði hann að nágrannar og íbúar Selfoss væru mjög skelkaðir eftir atburðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert