Siglufjarðarvegur lokaður vegna snjóflóðahættu

Siglufjörður.
Siglufjörður. mats.is

Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjófljóðahættu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Það hefur bætt töluvert á snjó á Skarðsdal síðan á sunnudag, í hlíðum sem snúa mót NA og SA. Enn sjást stærðarinnar haglkorn í nýsnævinu. Það gengur á með mjög dimmum éljum og skóf í NV-átt s.p. í gær (sunnudag) í Fljótunum. Mjög svipaðar niðurstöður fengust við prófanir og um helgina, brotin voru slétt en virðast vera mjög óstöðug. Veiku lögin virðast því frekar vera að veikjast, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Það eru hálkublettir á Hellisheiði og í Þrengslum en annars er víða hálka eða hálkublettir á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á fjallvegum en víða greiðfært í Borgarfirði og á Snæfellsnesi.

Hálka er á flestum leiðum á Vestfjörðum en snjóþekja á Hálfdán og Kleifaheiði. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði og þungfært á Þröskuldum en unnið að hreinsun.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum og snjókoma eða éljagangur nokkuð víða. Þæfingsfærð er nú á Mývatnsöræfum og á Hófaskarði en unnið að hreinsun. Siglufjarðarvegur er lokaður milli Ketiláss og Siglufjarðar vegna snjóflóðahættu.

Hálka eða hálkublettir eru á vegum á Austurlandi en greiðfært frá Breiðdalsvík og með suðausturströndinni að Jökulsárlóni en þar tekur við hálka eða hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert