Suðaustan stormur gengur yfir landið á morgun

Suðaustan stormur gengur yfir landið á morgun.
Suðaustan stormur gengur yfir landið á morgun. Rax / Ragnar Axelsson

Suðaustan 18-25 m/s stormur mun ganga yfir landið á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands gerir vonskuveðrið vart við sig strax í morgunsárið en það verður verst upp úr hádegi. Stormurinn kemur fyrst inn á suðvesturhorn landsins en mun ganga yfir landið og snúast í suðvestan um kvöldmatarleytið. Seint annað kvöld verður sunnan- eða suðvestanátt allhvöss um land allt.

Verst verður veður upp úr hádegi á morgun á suðvesturhorninu og fylgir storminum snjókoma til að byrja með sem breytist í slyddu og loks í rigningu.

Veðurspá næsta sólahringinn:

Norðvestan 10-18 m/s NA- og A-lands og él, en lægir í nótt. Annars mun hægari vestlæg átt með stöku éljum. Frost 0 til 8 stig. Gengur í suðaustan 18-25 með snjókomu undir hádegi, fyrst SV-lands. Lengst af hægari og þurrt fyrir norðan og austan. Rigning eða slydda S- og V-til síðdegis, talsverð um landið S- og SA-vert. Snýst í suðvestlæga átt annað kvöld og dregur úr vindi og úrkomu. Hlánar smám saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert