Tveggja flokka stjórn ekki möguleiki

Fari næstu þingkosningar í samræmi við niðurstöður síðustu skoðanakannana er ljóst að ekki verður mögulegt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn að þeim loknum. Annaðhvort verður þá hægt að mynda þriggja eða fjögurra flokka stjórn.

Ef tekið er mið af síðustu skoðanakönnun Capacent, sem hefur verið á hliðstæðum nótum og fyrri kannanir hvað þetta varðar, væri ekki hægt að mynda þriggja flokka stjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Án hans þyrftu stjórnarflokkarnir að vera fjórir. Þriggja flokka ríkisstjórnir hafa verið nokkuð algengar hér á landi. Hins vegar hefur aðeins einu sinni verið mynduð fjögurra flokka stjórn.

Sú stjórn var mynduð árið 1989 undir forsæti Steingríms Hermannssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins. Stjórnin var mynduð auk Framsóknarflokksins af Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu og Borgaraflokknum en sá síðastnefndi bauð fram í fyrsta sinn í kosningunum 1987 og fékk sjö þingmenn kjörna. 

Bætt við flokki til að styrkja stjórnina

Eftir kosningarnar 1987 mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn ríkisstjórn. En ári síðar sprakk sú stjórn og var þá ný stjórn mynduð af Framsóknarflokknum, Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu. Sú stjórn hafði hins vegar aðeins 31 þingmann af 63 auk þess sem ýmsir árekstrar urðu í samstarfinu.

Fyrir vikið var ákveðið að taka Borgaraflokkinn inn í samstarfið 1989 til þess að styrkja ríkisstjórnina. Tveir þingmenn Borgaraflokksins gengu úr flokknum í kjölfar samstarfsins, Ingi Björn Albertsson og Hreggviður Jónsson, og fóru að lokum í Sjálfstæðisflokkinn. Ný stjórn hafði engu að síður meirihluta á þingi og sat fram að kosningunum 1991 þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn mynduðu ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar.

Miðað við síðustu skoðanakönnun Capacent væri eftirfarandi þriggja og fjögurra flokka ríkisstjórnarsamstarf mögulegt óháð hugsanlegum ágreiningi um stefnumál og ef miðað er við stífan prósentuútreikning. Hvað raunverulega gerist í næstu þingkosningum og fram að þeim mun tíminn hins vegar vitanlega leiða í ljós.

Mögulegar þriggja flokka stjórnir:

Sjálfstæðisflokkurinn + Samfylkingin + Píratar

Sjálfstæðisflokkurinn + Samfylkingin + Björt framtíð

Sjálfstæðisflokkurinn + Samfylkingin + VG

Sjálfstæðisflokkurinn + Samfylkingin + Framsóknarflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn + Píratar + Björt framtíð

Sjálfstæðisflokkurinn + Píratar + VG

Sjálfstæðisflokkurinn + Píratar + Framsóknarflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn + Björt framtíð + VG

Sjálfstæðisflokkurinn + Björt framtíð + Framsóknarflokkurinn


Mögulegar fjögurra flokka stjórnir:

Samfylkingin + Píratar + Björt framtíð + VG

Samfylkingin + Píratar + Björt framtíð + Framsóknarflokkurinn

Samfylkingin + Píratar + VG + Framsóknarflokkurinn

Samfylkingin + Björt framtíð + VG + Framsóknarflokkurinn

Píratar + Björt framtíð + VG + Framsóknarflokkurinn

Eina fjögurra flokka ríkisstjórn Íslands 1989-1991.
Eina fjögurra flokka ríkisstjórn Íslands 1989-1991. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert