Valitor ekki tekið til gjaldþrotaskipta

Höfuðstöðvar Valitors í Dalshrauni í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Valitors í Dalshrauni í Hafnarfirði.

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu Datacell og Sunshine Press Productions um að bú Valitors verði tekið til gjaldþrotaskipta. Greinargerð sem lögð var fram í málinu var ekki talin hafa sönnunargildi í málinu.

Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að frumskilyrði þess að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé að sá, sem slíka kröfu gerir, eigi lögvarða kröfu á hendur þeim sem krafan beindist að.

Í dómi yfir Valitor hefði ekki verið kveðið á um bótaskyldu fyrirtækisins vegna riftunarinnar á samningi við Datacell, enda ekki verið gerð krafa um viðurkenningu á henni.

Þá hefðu Datacell og Sunshine Press Productions lagt fram máli sínu til stuðnings óundirritaða greinargerð sem þeir hefðu aflað utan réttar en talið var að gegn andmælum Valitor hefði hún ekki sönnunargildi í málinu.

Var því ekki talið að Datacell og Sunshine Press Productions hefðu sýnt fram á að þeir ættu, að svo komnu máli, lögvarða kröfu á hendur Valitor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert