Fauk útaf undir Hafnarfjalli

Rúta fauk út af veginum undir Hafnarfjalli um tíuleytið í morgun en mjög er farið að hvessa á þessum slóðum, segir lögreglan í Borgarnesi. Ekkert amaði að farþegum rútunnar og engar skemmdir urðu á henni og hélt hún áfram leiðar sinnar, að sögn lögreglu.

Mjög hvasst er undir Hafnarfjalli og fer í allt að 44 metra á sekúndu í verstu hviðum. Hálkublettir og óveður eru á Kjalarnesi, hálka og óveður er við sunnanverðan Hvalfjörð. Óveður er á Grindavíkurvegi og við Festarfjall.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir. Ófært og stórhríð er á Fróðárheiði. Hálkublettir og óveður er undir Hafnarfjalli. Hálka eða snjóþekja er nánast á öllum á vegum á Vestfjörðum, þó aðeins hálkublettir á Innstrandavegi.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja  á vegum.

Hálka, snjóþekja eða hálkublettir eru á vegum á Austurlandi. Greiðfært er frá Breiðdalsvík með suðausturströndinni vestur undir Öræfi en þar tekur við hálka og hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert