Flestir fara í framhaldsskóla

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Nemendum á framhaldsskólastigi fækkaði um 3,1% haustið 2013 en að meðaltali sóttu rúm 95% 16 ára skóla haustin 2012 og 2013 og tæp 83% 18 ára nemenda. Skólasóknin er minnst meðal innflytjenda.

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 45.378 haustið 2013 og fækkaði um 84 nemendur frá fyrra ári, eða 0,2%, aðallega vegna færri nemenda á framhaldsskólastigi. Alls sóttu 20.400 karlar nám og 24.978 konur. Körlum við nám fækkaði um 170 frá fyrra ári (-0,8%) en konum fjölgaði um 86 (0,3%).

Á framhaldsskólastigi stunduðu 24.711 nemendur nám og fækkaði um 3,1% frá fyrra ári. Á viðbótarstigi voru 828 nemendur og fækkaði um 4,7%. Á háskólastigi í heild voru 19.839 nemendur og fjölgaði um 3,9% frá haustinu 2012. Þessar breytingar má að hluta til skýra með breytingum á mannfjöldanum, þar sem íbúum á Íslandi á aldrinum 16-20 ára fækkaði um 200 en íbúum á aldrinum 21-25 ára fjölgaði um 700 á milli þessara ára, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Að meðaltali sóttu rúm 95% 16 ára skóla haustin 2012 og 2013 og tæp 83% 18 ára nemenda. Skólasókn 16 ára er minnst meðal innflytjenda en rúmlega 86% þeirra sóttu skóla að meðaltali þessi tvö ár og tæp 65% voru í skóla við 18 ára aldur. Rúm 97% 16 ára af annarri kynslóð innflytjenda sóttu skóla þessi tvö ár en hlutfallið hafði lækkað niður í 75% í þessum hópi við 18 ára aldur.

Við 18 ára aldur er skólasókn mest meðal nemenda, sem eru fæddir erlendis en hafa íslenskan bakgrunn; tæp 89% þeirra sóttu skóla að meðaltali haustin 2012 og 2013.

Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar, sem koma til ársdvalar á Íslandi, teljast með innflytjendum í þessum tölum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þess skal getið, að aðeins á fjórða tug nemenda tilheyra annarri kynslóð innflytjenda þegar tölur fyrir tvö skólaár eru lagðar saman, segir ennfremur í frétt Hagstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert