Lítt spennandi spá næstu daga

Það má búast við rigningu þegar líður á daginn
Það má búast við rigningu þegar líður á daginn mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir að von sé á vonskuveðri þá mun það ekki hafa mikil áhrif á samgöngur á þéttbýlisstöðum í dag. Færð gæti þó spillst á Hellisheiði síðar í dag. Það fer að hvessa um hádegið með vaxandi suðaustanátt en þegar líður á daginn snýst yfir í sunnanátt með rigningu og slyddu.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það muni snjóa í fyrstu víðast hvar á Suður- og Vesturlandi fyrir utan Reykjanes þar megi eiga von á slyddu og rigningu. Þegar líður á daginn færist vindáttin í suður með rigningu og slyddu. Það dregur síðan úr úrkomu og vindi með kvöldinu og væntanlega verður veðrið verst þegar flestir eru í vinnu eða skóla þannig að áhrifin á samgöngur verða ekki mikil til að mynda á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki megi búast við hláku á Hellisheiði og það geti verið leiðinlegt að keyra hana síðdegis. Þegar vindur færist í suður verður skaplegra að keyra bæði fyrir Hafnarfjall og Kjalarnes en þegar veðrið verður verst upp úr hádegi.

Veður á mbl.is

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu:

Hægt vaxandi SA-átt, skýjað og hiti um frostmark. Gengur í suðaustan 15-23 með snjókomu undir hádegi, en slyddu og síðar rigningu seinnipartinn. Hlánar. Heldur hægari suðvestanátt og skúrir eða él í kvöld.

Að sögn Óla er spáin ekki spennandi fyrir næstu daga en á föstudag er von á stormi með slyddu og rigningu, einkum á Suður- og Vesturlandi. Jafnframt er spáin slæm fyrir helgina en mánudagurinn er ágætur. Síðan stefnir í rok á nýjan leik á þriðjudag.

Eini stóri munurinn er að kalda loftið er að gefa eftir þannig að það nær ekki að kólna jafnmikið á milli lægða eins og gerði aðeins fyrr í vetur. Það er að verða lítið eftir af kaldasta loftinu sem hefur verið að hrella okkur milli lægða, segir Óli.

Hann segir að þrátt fyrir að spáð sé vonskuveðri sé þetta ekki verra veður en landsmenn hafi fengið að kenna á ítrekað í vetur. 

Horfur næsta sólarhring:

Hægt vaxandi SA-átt S- og V-til og þykknar upp, en minnkandi norðvestanátt NA- og A-lands og þurrt að kalla. Frost 0 til 8 stig. Suðaustan 18-25 með snjókomu undir hádegi, fyrst SV-lands. Lengst af hægari og þurrt fyrir norðan og austan. Rigning eða slydda S- og V-til síðdegis, talsverð um landið S- og SA-vert. Snýst í suðvestlæga átt í kvöld og dregur úr vindi og úrkkomu. Hlánar smám saman.

Á fimmtudag:
Suðvestan 13-20 og él, en léttir til á NA- og A-landi. Frostlaust með S-ströndinni og á Austfjörðum, annars hiti í kringum frostmark.

Á föstudag:
Suðaustanstormur með slyddu eða rigningu, einkum S- og V-lands. Hiti 0 til 5 stig. Suðvestanstormur með kólnandi veðri og éljum síðdegis, en styttir upp NA-til.

Á laugardag og sunnudag:
Suðvestan hvassviðri og jafnvel stormur með éljum, en úrkomulítið NA-lands. Frost víða 0 til 6 stig.

Á mánudag:
Minnkandi suðvestlæg átt með éljum S- og V-lands, annars þurrt. Frostlaust við ströndina, en vægt frost inn til landsins.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt er líður á daginn með slyddu og síðar rigningu um landið SV-vert. Hlánar S- og V-lands.

Upplýsingar frá Vegagerðinni frá því í gærkvöldi:

Snjóflóðahætta á Siglufjarðarvegi hefur verið metin það mikil að ekki þótti rétt að opna veginn í gærkvöld.

Færð og aðstæður

Það eru hálkublettir í Þrengslum en hálkublettir eða jafnvel hálka er allvíða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er víða nokkur hálka, einkum á fjallvegum. Hálka eða snjóþekja er nánast á öllum á vegum á Vestfjörðum, þó aðeins hálkublettir á Innstrandavegi.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum og éljagangur og skafrenningur nokkuð víða. Þæfingsfærð er á Tjörnesi en ófært á Hólasandi og Hófaskarði. Siglufjarðarvegur er lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu.

Þæfingsfærð er á Möðrudalsöræfum og talsverður skafrenningur. Annars er hálka eða hálkublettir á vegum á Austurlandi. Greiðfært er frá Breiðdalsvík með suðausturströndinni vestur undir Öræfi en þar tekur við hálka og hálkublettir.

Hellisheiðin gæti reynst erfið fyrir vegfarendur síðdegis en ekki er …
Hellisheiðin gæti reynst erfið fyrir vegfarendur síðdegis en ekki er von á truflunum á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Malín Brand
Þó svo von sé á vonskuveðri þá snjóar aðeins í …
Þó svo von sé á vonskuveðri þá snjóar aðeins í fyrstu en fer síðan yfir í slyddu og rigningu. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert