Lokað og óveður víða

Veðrið hefur gert landsmönnum lífið leitt í dag.
Veðrið hefur gert landsmönnum lífið leitt í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lokað er á vegum um Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli en opið um Suðurstrandaveg. Þar er óveður. Lokað er um Mosfellsheiði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Í henni er að finna ábendingu frá veðurfræðingi:

„Skil óveðurslægðarinnar fara hratt norður yfir landið og í kjölfar þeirra nú síðdegis snýst vindátt og lægir lítið eitt. Þó er útlit fyrir hríðarveður fram á kvöld á fjallvegum austanlands. Þó það versta verði yfirstaðið í kvöld verður áfram hvasst og skafrenningur viðvarandi á hærri fjallvegum. Vestantil á landinu einnig ofanhríð eða éljagangur. Það hlýnar og blotnar allvíða. Hætt við að flughált verði þar sem klaki og snjór er fyrir, svo sem í uppsveitum Suðurlands og víða á láglendi norðanlands.“

Þar segir einnig um færð og aðstæður:

Lokað á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum og líka á Mosfellsheiði. Hálkublettir og óveður eru á Kjalarnesi, hálka og óveður er við sunnanverðan Hvalfjörð. Hálka eða hálkublettir er víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir og skafrenningur á fjallvegum. Ófært og stórhríð er á Fróðárheiði. Hálka og óveður er undir Hafnarfjalli. Stórhríð og hálka er á Útnesvegi.

Hálka eða snjóþekja er nánast á öllum á vegum á Vestfjörðum, þó er Þæfingsfærð á Gemlufallsheiði, Klettshálsi og hluta að djúpinu en aðeins hálkublettir á Innstrandavegi. Ófært og stórhríð er á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði. Ófært um Raknadalshlíð.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja  á vegum og eitthvað um skafrenning. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði.

Hálka, snjóþekja eða hálkublettir eru á vegum á Austurlandi. Greiðfært er frá Breiðdalsvík með suðausturströndinni vestur undir Öræfi en þar tekur við hálka og hálkublettir. Óveður er við Hvamm undir Eyjafjöllum.

Vegna vinnu við brúargólf á brúnni yfir Sogið við Þrastalund verður lokað fyrir umferð á annari akreininni. Umferð verður stýrt með ljósum. Framkvæmdir munu standa yfir frá 4. mars til 20. júní.

Almannavarnir hafa lokað  leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla. Vegurinn vestan við Dettifoss er einnig lokaður að hluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert