Ekkert ákveðið með útgönguskatt

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Fjármálaráðherra tók á Alþingi í dag undir með þau orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að nauðsynlegt væri að ekki væri upplýst nákvæmlega hvernig staðið yrði að afnámi fjármagnshaftanna áður en gripið yrði til þeirra aðgerða. Enda væru þar gríðarlegir hagsmunir undir fyrir íslensku þjóðina.

Bjarni Benediktsson brást þar við svari frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Vísaði hún til hliðstæðrar fyrirspurnar til forsætisráðherra í síðustu viku. Spurði hún hvort ekki væri rétt að almenningur fengi upplýsingar um fyrirhugaða áætlun stjórnvalda vegna afnáms haftanna enda fyrirséð að málið gæti haft mikil áhrif á kjör hans. Ýmsar vangaveltur hefðu verið uppi í þeim efnum í umræðunni. Meðal annars um að komið yrði á útgönguskatti og tölur nefndar í því sambandi.

Bjarni sagði að ekki mætti blanda saman tveimur málum í því sambandi. Annars vegar til hvaða aðgerða yrði gripið til þess að viðhalda stöðugleika og vernda þjóðhagslega hagsmuni samhliða afnámi fjármagnshaftanna og hins vegar nákvæmlega hvernig höftin yrðu afnumin. Það þjónaði ekki sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar að það síðarnefnda væri fyrir allar augum. Þá sagði Bjarni að engin ákvörðun lægi fyrir um útgönguskatt og stjórnvöld hefðu engar tölur nefnt í því sambandi.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert