Guðrún hlaut viðurkenningu Hagþenkis

Við afhendingu verðlaunanna í dag. Guðrún er lengst til vinstri …
Við afhendingu verðlaunanna í dag. Guðrún er lengst til vinstri en með henni á myndinni eru aðrir höfundar ritsins. mbl.is/Eggert

Guðrún Kristinsdóttir hlaut viðurkenningu Hagþenkis í dag fyrir ritstjórn Ofbeldi á heimili - Með augum barna. Viðurkenningaráð sagði ritið „merkilegt brautryðjandaverk sem á ríkt erindi við kennara, foreldra og alla sem láta sér annt um börn og velferð þeirra“.

Aðrir höfundar verksins eru Ingibjörg H. Harðardóttir, Margrét Ólafsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Nanna Þ. Andrésdóttir og Steinunn Gestsdóttir.

Guðrún er doktor í félagsráðgjöf og varð prófessor í uppeldis- og menntunarfræðum við KHÍ árið 2002. Frá 2005 hefur hún verið Associate Fellow við University of Warwick í Englandi. Guðrún kennir aðferðafræði rannsókna og barnavernd við Menntavísindasvið HÍ og leiðbeinir nemendum sem rannsaka velferð, líðan og réttindi barna.

Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna. Í tilkynningu frá félaginu segir að viðurkenningin teljist til virtustu og veglegstu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna getur hlotnast. Verðlaunaféð er ein milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert