Komið á í tíð síðustu stjórnar

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sú stefna að gengið sé að erfingjum ábyrgðarmanna vegna námslána er ekki ný stefna hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna heldur hefur verið fylgt því fyrirkomulagi frá árinu 2012. Þetta kom fram í máli Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar.

Árni fór hörðum orðum um umrætt fyrirkomulag og LÍN í tilefni af fréttum um að lánasjóðurinn hafi sent þúsundum Íslendinga bréf nýverið um ábyrgðir þeirra vegna erfðamála sem þeir hafi ekki haft hugmynd um. Einkennilegt væri að erfingjar lántaka sem féllu frá bæru enga ábyrgð á námslánum hans en börn og barnabörn ábyrgðarmanna væru hundelt. Fullyrti hann að um nýja stefnu væri að ræða hjá LÍN sem hefði ekki verið fylgt áður og ennfremur brot á lögum. Svör Illuga væru varnarræða gamla Íslands.

Illugi benti á að umræddu fyrirkomulagi hjá LÍN hefði verið komið á í tíð síðustu ríkisstjórnar sem Árni Páll hafi meðal annars setið í um tíma. Hann hefði betur gert athugasemdir við fyrirkomulagið þá. Samkvæmt fyrirkomulaginu hefðu erfingjar ábyrgðarmanna þann valkost að gera kröfu á þann sem greiddi ekki af námsláni sínu. LÍN hefði engar heimildir til þess að fella niður ábyrgðir. Bréfin sem send hefðu verið út af hálfu LÍN hefðu ennfremur ekki verið innheimtubréf heldur upplýsingabréf um stöðu ábyrgða.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert