Notuðu 5.800 sundlaugar af heitu vatni

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Einstaklingar og atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu notuðu 8,7 milljón rúmmetra af heitu vatni í febrúarmánuði. Það eru 5.800 sundlaugar, ef miðað er við djúpu útilaugina í Laugardalslaug. Jafnframt eru það hvorki meira né minna en 4,35 milljarðar tveggja lítra kókflöskur. 

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur hefur meiri notkun í febrúarmánuði ekki sést áður. Sá febrúarmánuður, sem næst kemur, var árið 2008. Þá var notkunin 8,3 milljónir rúmmetrar. Notkunin í ár er 8% meiri en árið 2008.

Dagsnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í febrúar var 310 þúsund rúmmetrar á dag. Er sú notkun ýfið minni en í janúar, en þá notuðu einstaklingar og atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu 312 þúsund rúmmetra af heitu vatni á dag. 

Hiti hækkar en rafmagn lækkar

Á vefsíðu Orkuveitunnar kemur fram að breytingar hafi orðið á verði veituþjónustunnar um áramótin. Var það einkum vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt en hann hækkaði á hitaveituna en lækkaði á rafmagnið. „Útgjöld fjölskyldu í 100 fermetra íbúð með algenga orkunotkun hækka um rúmar 270 krónur á mánuði,“ segir á vefsíðunni.

Jafnframt kemur fram að verð Orkuveitunnar á heitu vatni hafi lækkað um 0,1% um áramótin. Á móti kemur að virðisaukaskattur á hitaveituna hækkar úr 7% í 11%. Þar af leiðandi mátti gera ráð fyrir því að hitareikningur fólks á höfuðborgarsvæðinu myndi hækka um 3,7% um áramótin.

Á meðan hitareikningur fólks hækkaði lækkað rafmagnsreikningurinn. Virðisaukaskattur á rafmagn lækkaði úr 25,5% í 24%. Þar sem engin breyting varð hjá Orkuveitunni á dreifiverði rafmagns, sem er meira en helmingur rafmagnsreikningsins samkvæmt vefsíðu Orkuveitunnar, birtist sú lækkun beint á rafmagnsreikningum sem 1,2% lækkun.

Almenn þjónustugjöld Orkuveitunnar breyttust ekki um áramót.

Mikilvægt að hafa réttar stillingar

Í bæklingi sem gefinn var út af Orkuveitu Reykjavíkur má finna ráð um hvernig best sé að nýta heitavatnið. Kemur þar m.a. fram hversu mikilvægt það er að hitanemar séu ekki lokaðir af með húsgögnum eða gluggatjöldum. Gluggatjöld hindra loftstreymi frá ofnum og geta „gabbað“ lofthitastýrðan ofnloka þannig að hann lokar fyrir hitun áður en herbergishiti er nægur. 

Kemur einnig fram að æskileg stilling á ofnum er háð útihita. Til að mynda ef hitastig úti er -10°C er æskileg stilling á vatnshitastýrðum ofni 2,8. Sé hitinn -5°C er æskileg stilling 2,3, við 0°C er æskileg stilling 2,0 en 1,6 við 5°C. Ef hiti fer alla leið upp í 10°C er æskileg stilling 1,1.

Febrúarnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Febrúarnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Dagleg notkun á heitu vatni í febrúar 2015 og 2014.
Dagleg notkun á heitu vatni í febrúar 2015 og 2014.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert