Undirbýr risahótel í Keflavík

Hótelið yrði byggt í stíl við Víkurbraut 15, nema hvað …
Hótelið yrði byggt í stíl við Víkurbraut 15, nema hvað byggð yrði hæð ofan á húsið. Stórbrotið útsýni er frá svölum fjölbýlishússins. mbl.is/Baldur

Til skoðunar er að reisa 98 herbergja hótel við Víkurbraut í Keflavík sem kæmi í stað fyrirhugaðs fjölbýlishúss við sjóinn. Til samanburðar eru 77 herbergi á Hótel Keflavík, stærsta gististað Reykjanesbæjar. Hótelið yrði því mjög stórt miðað við staðsetningu.

Grunnur hússins að Víkurbraut 17 hefur staðið óhreyfður síðan í efnahagshruninu.

Áskell Agnarsson, framkvæmdastjóri Húsagerðarinnar hf., hefur ásamt arkitektum hússins gert drög að breyttri hönnun þess og leitar nú að áhugasömum fjárfestum. Hugmyndin gengur út á að bæta einni hæð ofan á húsið þannig að það yrði átta hæðir, auk kjallara og bílakjallara þar fyrir neðan, sem brúar hæðarmuninn niður á hafnarsvæðið, alls 10 hæðir. Yrði kjallarinn notaður fyrir eldhús og veitinga- og þjónusturými.

Stutt frá flugvellinum

„Staðsetningin er mjög góð. Við erum aðeins í 5 mínútna fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli. Rætt er um að hótel séu að færast út fyrir miðborg Reykjavíkur. Hér eru ýmis tækifæri,“ segir Áskell sem hefur séð um viðbyggingar og viðhald í Bláa lóninu. Þar er fyrirtæki hans nú að störfum. Tilboð í 5 stjörnu og 60 herbergja hótel við lónið verða opnuð 17. mars og er stefnt að opnun 2017.

Á Víkurbraut og í næstu götu eru háreist fjölbýlishús með stórkostlegu útsýni yfir Reykjanesið og vestur á Snæfellsnes. Áskell segir þau með vandaðri fjölbýlishúsum sem byggð hafa verið í Reykjanesbæ. Vegna lágs fasteignaverðs sé ekki markaður fyrir slíkt húsnæði á svæðinu núna. „Eldra fólk sem hefur áhuga fær hins vegar ekki það verð sem það væntir, ef það vill minnka við sig. Ef maður hefði vitað að svo langt hlé yrði á íbúðamarkaði hefði maður ef til vill farið fyrr af stað með þessa hótelhugmynd,“ segir hann.

Ásbrú dregur niður markaðinn

Áskell segir það hafa meðal annars haldið fasteignamarkaðnum í Reykjanesbæ niðri að um 2.000 íbúðir og mikið af atvinnuhúsnæði á Ásbrú skyldi hafa bæst við markaðinn þegar húseignirnar voru afhentar íslenska ríkinu við brotthvarf Bandaríkjahers árið 2006. „Þar er bæði hægt að leigja íbúðar- og atvinnuhúsnæði fyrir tiltölulega lágt verð miðað við byggingarkostnað á svæðinu. Ég veit að menn sem eiga atvinnuhúsnæði í Reykjanesbæ hafa goldið fyrir þetta. Meira að segja bæjarfélagið flutti hluta sinnar starfsemi úr Reykjanesbæ á Ásbrú, sennilega vegna betri leigukjara,“ segir Áskell sem hefur starfað á sömu kennitölunni í 43 ár og byggt um 600 íbúðir ásamt ýmsum öðrum mannvirkjum víðsvegar um landið.

Eftirspurn eftir gistingu á Ásbrú hefur vaxið ört

Vel á þriðja hundrað gistirými eru nú í boði á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Hjörtur Árnason, framkvæmdastjóri Bed and Breakfast Keflavík Airport, segir félagið hafa haft til skoðunar að bæta við um það bil 25 herbergjum í álmu sem byggð yrði ofan á gistiheimilið.

„Við stöndum undir kröfum sem þriggja stjörnu hótel en höfum ákveðið að halda okkur við að vera gistiheimili. Við sækjum fólk út á flugvöll og keyrum það aftur út á völl á morgnana þegar það fer heim. Stór hluti gistingar er einnar nætur gisting. Við fáum mikið af fólki sem kemur með vélum sem lenda um og eftir miðnættið. Við bjóðum gistingu og morgunverð. Það eru baðherbergi á öllum okkar herbergjum,“ segir Hjörtur.

Það kostar nú 5.600 krónur að geyma bílinn í sjö daga á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt vefsíðu Kefparking, en til samanburðar býður Hjörtur tveggja manna herbergi með morgunverði á 9.900 krónur og er akstur til og frá velli innifalinn.

Ragnheiður Hauksdóttir, rekstrarstjóri Start Hostel Keflavik Airport, segir færast í vöxt að fólki finnist það góður kostur að vera fyrstu nóttina eftir flug eða síðustu nóttina fyrir flug í slíkri gistingu.

„Það er orðið svo mikið um næturflug. Fólk er farið að byrja ferðina hér eða er hér síðustu nóttina. Þetta hefur aukist gríðarlega. Nýtingin yfir veturinn fer vaxandi. Eftirspurnin fer vaxandi. Íslendingar, einkum fólk utan af landi, sjá sér hag í því að hefja ferðalagið hér í Ásbrú. Hér er stutt að fara í flug og ekkert stress,“ segir Ragnheiður og bendir á að nú séu um 30 gististaðir í Reykjanesbæ og á Ásbrú. Hún telur að auka þurfi gæði margra gististaða. Þá þurfi að byggja upp meiri þjónustu á Ásbrú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert