Vissi ekki af fjármagninu

Ibrahim Sverrir Agnarsson er formaður Félags múslima.
Ibrahim Sverrir Agnarsson er formaður Félags múslima. Eggert Jóhannesson

Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, segist fyrst hafa frétt af fyrirhugaðri peningagjöf Sádi-Arabíu til félagsins í dag í gegnum fjölmiðla. Eins og mbl.is sagði frá fyrr í dag hyggst Sádi-Arabía leggja eina milljón Bandaríkjadala til byggingar mosku í Reykjavík en sú fjárhæð samsvarar um 135 milljónum íslenskra króna. 

Ibrahim Sverrir segir fréttirnar koma sér á óvart enda hafi verið greint frá því í fréttum á síðasta ári að Sádi-Arabía hygðist styrkja trúfélagið Menningarsetur múslima á Íslandi um háar fjárhæðir. Hinsvegar virðist enginn vafi leika á því að fjármagnið sé ætlað Félagi múslima. Sendiherra Sádi-Arabíu, sem greindi frá peningagjöfinni á fundi með forseta Íslands, greindi jafnframt frá heimsókn sinni á lóðina þar sem moskan mun rísa en Menningarsetur múslima hefur ekki fengið slíka lóð, ólíkt Félagi múslima. 

„Að allt í einu birtist einhverjar 135 milljónir eru auðvitað gleðifréttir en ég hef ekki heyrt slíkt boð eða hvort því fylgi einhver skilyrði eða skilmálar. Við höfum alltaf haft það fyrir stefnu að taka ekki fjármagn sem skerðir okkar sjálfstæði,“ segir Ibrahim. 

 „Við tökum því ekki ef það eru einhver skilyrði sem fylgja því sem við getum ekki fallist á, s.s. í tengslum við yfirráð á moskunni eða hvern við ráðum sem imam.“

Ibrahim segir að félagið hafi vissulega verið í sambandi við Sádi-arabíska sendiráðið í gegnum tíðina og að í fyrra hafi hann sent fyrirspurn á utanríkisráðuneytið varðandi erlenda fjármögnun. „Ég tilgreindi sérstaklega Sádi-Arabíu og Kúveit og það kom jákvætt svar við því.“

Ibrahim er staddur í London þar sem hann fundar með öðrum múslimum vegna fyrirhugaðrar arkitektasamkeppni um byggingu moskunnar. Hann segir eiginlega fjármögnun moskunnar í raun ekki hafna enda sé félagið fyrst nú að blása til samkeppni um verkið.

 „Við höfum alltaf verið mjög bjartsýnir og fengið allskonar loforð um styrki frá hinum og þessum. Við viljum helst að fjármagnið komi frá fleirum en einum aðila. Arkitektar telja að þetta muni kosta 300 til 400 milljónir svo það mun vanta eitthvað upp á en ef þessi gjöf beinist til okkar er það mjög góð byrjun.“

Frétt mbl.is:
Sádi-Arabar styrkja byggingu mosku í Reykjavík

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert