Dæmdur fyrir að kaffæra dreng

Héraðsdómur Reykjavíkur. Úr myndasafni.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Úr myndasafni. mbl.is

Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 200.000 krónur í miskabætur til drengs sem hann hrinti í snjóskafl og tróð snjó inn á eftir að hann taldi að drengurinn og vinur hans hefðu kastað snjóboltum í hund barnsmóður sinnar.

Í dómnum kemur fram að drengurinn og vinur hans hafi verið að henda snjóboltum við hús í Rimahverfi í Reykjavík. Ákærði, sem var staddur á heimili barnsmóður sinnar, hafi talið að þeir hafi kastað snjó í hvolp konunnar sem var úti á palli. Hann hafi skipað þeim að fara, sem þeir og gerðu, en þeir komu aftur og hófu að kasta snjóboltum í rúðu íbúðarinnar.

Þá hafi maðurinn farið út og elt drenginn. Tók hann harkalega í úlpu drengsins, henti honum í snjóskafl og tróð snjó inn á hann. Var drengurinn eitthvað lemstraður eftir á og sleginn yfir atburðinum.

Sjálfur viðurkenndi maðurinn að hafa troðið snjó inn á drenginn. Hann hafi hins vegar ekki hlotið neina áverka af því. Hann hafi ekki ætlað að meiða drenginn og hann hafi ekki stokkið ofan á hann eins og haft væri eftir drengnum í lögregluskýrslu.

Í ljósi framburðar drengsins með hliðsjón af áverkum sem hann greindist með í framhaldinu taldi Héraðsdómur Reykjavíkur fullsannað að maðurinn hefði hrint drengnum í snjóskafl og troðið snjó inn á hann. Því var hann dæmdur sekur af ákæru um líkamsárás og brot á barnaverndarlögum. Var refsing hans ákveðin hæfileg 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Hann þarf jafnframt að greiða drengnum 200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert