„Fráleit útlegging á því sem ég sagði“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er alveg fráleit útlegging á því sem ég sagði í þættinum,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is vegna fréttar á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar þess efnis að hann hafi sagt í viðtali á stöðinni að hann hefði efasemdir um Evrópusambandið og evruna og að sjálfsagt væri að skoða aðra kosti sem gætu tryggt lífskjör þjóðarinnar.

„Ég var spurður út í þessa afstöðu og svaraði því til að ég hefði árum saman tamið mér það að næra með mér efasemdir um Evrópusambandið og hvort aðild að því væri réttur kostur. Ég hefði reglulega endurmetið það en alltaf komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri besti kosturinn fyrir Ísland og það er enn mín afstaða. Hún er alveg óbreytt. Ástæðan er sú að þetta er ekkert trúaratriði heldur snýst málið um mat á íslenskum hagsmunum í ljósi þróunar í útlöndum. Bæði geta hagsmunir Íslands breyst og eins getur þróun mála erlendis tekið breytingum. Þess vegna skiptir máli að hafa þesi mál alltaf til stöðugs endurmats,“ segir Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert