Framburður haldinn „óraunveruleikablæ“

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga bandarískri stúlku sem hafði leigt herbergi í sömu íbúð árið 2013. Maðurinn neitaði sök en Héraðsdómur Reykjavíkur taldi framburð hans haldinn miklum óraunveruleikablæ og skynjun hans á aðstæðum gæti á engan hátt staðist.

Stúlkan kom til landsins í ágúst árið 2013 til að stunda rannsóknir og leigði herbergi í íbúð í Reykjavík. Henni var tjáð af leigusala að ráðsmaður myndi hleypa henni inn og afhenda henni lykla. Það var ákærði en hann bjó í íbúðinni, þó að stúlkan hafi ekki áttað sig á þeirri staðreynd.

Í dómnum kemur fram að maðurinn lagðist nakinn upp í rúm hjá henni þar sem hún lá aðeins klædd hlýrabol og nærbuxum að morgni dags 21. ágúst 2013. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir stúlkunnar um að hann léti af athæfi sínu strauk maðurinn henni um handleggi, bak, brjóst, læri og rass utan- og innanklæða og snerti einnig getnaðarlim sinn. Þegar stúlkan sneri sér undan manninum lagðist hann ofan á hana, hélt henni niðri og „viðhafði samræðishreyfingar“ þannig að stinnur getnaðarlimur hans straukst við rass stúlkunnar.

Sagði stúlkuna hafa strítt sér og brosað daðrandi

Frásögn mannsins, sem er fæddur árið 1980, var á allt annan veg en hann neitaði sök. Kvaðst hann hafa farið inn í herbergi til stúlkunnar, eftir að hún bauð honum inn, og setið, ásamt henni, á rúmi hennar. Hann hafi snert hár hennar vinalega. Stúlkunni hafi mislíkað þetta og sagt manninum að yfirgefa herbergið. Hann hafi gert það. 

Maðurinn hefur haldið því fram að stúlkan hafi fyrir þennan atburð verið að stríða sér og athugað hvaða vald hún hefði yfir honum. Hafi hún verið að senda ákærða kynferðisleg skilaboð á ýmsan hátt, með því meðal annars að koma rakvél fyrir á baðinu með tilteknum hætti og vera fáklædd í íbúðinni þannig að ákærði sæi til. Hún hafi vakið athygli mannsins á sér með því að opna og loka hurð margsinnis. Bros hennar hafi verið daðrandi og hún sent ákærða skilaboð með því.

Dómurinn taldi framburð ákærða um þessi atriði haldinn miklum óraunveruleikablæ og skynjun hans á aðstæðum fái á engan hátt staðist. Framburður stúlkunnar hafi hins vegar verið á einn og sama veg og verið einkar trúverðugur.

Því var maðurinn dæmdur í tveggja ára fangelsi en ekki þótti ástæða til að skilorðsbinda dóminn að neinu leyti. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunni eina milljón króna í miskabætur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert