Hávaðarok og óveður

mbl.is/Malín Brand

Snjókoma, skafrenningur og hvassviðri er á Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengslum. Mjög hvasst er undir Eyjafjöllum, Suðurnesjum, Reykjanesbraut og á Kjalarnesi en á þessum stöðum eru vegir auðir.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar fara skil hratt norður yfir landið framan af deginum. Það er suðaustanátt og eru 18-23 m/s sunnan- og vestantil og í hviðum fer vindhraðinn í 30-40 m/s á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að það muni lægja mikið um ellefuleytið.

Snjóþekja, skafrenningur og hvassviðri er á Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengslum. Hálka er á Mosfellsheiði en annars er hálka eða hálkublettir mjög víða á Suðurlandi og mikið hvassviðri eins og undir Eyjafjöllum. Mikið hvassviðri er á Suðurnesjum, Reykjanesbraut og við Kjalarnes en vegir eru auðir, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Óveður á Bröttubrekku

Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum leiðum en þæfingsfærð og óveður á Bröttubrekku og þæfingsfærð á Holtavörðuheiði og snjóþekja á Svínadal. Hálkublettir og óveður er á norðanverðu Snæfellsnesi. Hvassviðri er við Hafnarfjall en auður vegur.

Hálka eða snjóþekja er víða á Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Klettshálsi og Mikladal en verið að hreinsa. Þungfært og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði en þar er unnið að mokstri. Ófært og óveður er á Kleifaheiði.

Hálka og skafrenningur á Vatnsskarði

Á Norðurlandi vestra er hálka eða snjóþekja. Hálka og skafrenningur er á Vatnsskarði en snjóþekja á Öxnadalsheiði. Hálka eða hálkublettir eru á Norðurlandi eystra en ófært er á Hólasandi og á Dettifossvegi.

Það er hálka eða hálkublettir á vegum á Austurlandi en greiðfært er frá Fáskrúðsfirði og með suðausturströndinni að Öræfasveit en þar taka við hálkublettir eða hálka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert