Umfjöllun um Karl Vigni kom af stað bylgju

Fjöldi nýrra mála hjá Stígamótum á síðasta ári var 306. Eru það færri en árið á undan en árið 2013 var „sprengjuár“ þegar það kom að umfjöllun um kynferðisbrot. Er það tengt við fjölmiðlaumfjöllun um kynferðisafbrotamanninn Karl Vigni Þorsteinsson, en hann var dæmdur árið 2013 í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur mönnum. 

Komst málið upp í kjölfar umfjöllun Kastljóss snemma árs 2013 um brot Karl Vignis sem voru mörg, stóðu yfir langt tíma og beind­ust gegn and­lega fötluðum mönn­um.

Umfjöllun um brot mikilvæg

Árið 2013 var fjöldi nýrra mála hjá Stígamótum 358 og hafa ekki verið fleiri ný mál síðan 1992 en þá voru þá 454 talsins. Þetta kom fram á blaðamannafundi vegna ársskýrslu Stígamóta sem haldinn var í morgun. Talskona Stígamóta, Guðrún Jónsdóttir segir að umfjöllunin um brot Karls Vignis hafi komið af stað bylgju þar sem fólk fór í auknum mæli að horfast í augu við brot sem þau hafa orðið fyrir.

„Það var ekki bara hjá okkur þar sem umfjöllunin olli fleiri málum heldur líka hjá lögreglu og hjálparapparatinu öllu þegar það kemur að kynferðisbrotum,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. Hún segir mörg dæmi til um þar sem umfjöllun um kynferðisbrot komi af stað álíka bylgju og árið 2013.

„Við höfum alveg mörg dæmi um það að þegar að mikil umfjöllun á sér stað um kynferðisofbeldi kemur hrina af málum til okkar,“ segir Guðrún. Í því samhengi nefnir hún umfjöllun um kynferðisbrot innan kirkjunnar sem voru áberandi fyrir nokkrum árum og umfjöllun um kynferðisbrot sem áttu sér stað á Breiðavíkurheimilinu.  „Umfjöllun um þessi brot er gífurlega mikilvæg,“ segir Guðrún.

Fleiri brotaþolar karlkyns 2013 en í fyrra

Fjöldi ofbeldismanna í málum sem komu á borð Stígamóta á síðasta ári var 423 en heildarfjöldi einstaklinga var 617. Jafnframt var heildarfjöldi viðtala 2.146.

Af 277 brotaþolum á síðasta ári voru 33, eða 11,9% karlkyns en 244, eða 88,1% kvenkyns. Að sögn Guðrúnar voru fleiri karlmenn brotaþolar árið 2013, eða 18% og tengir hún það einnig við mál Karls Vignis. Bætti hún við að 12% hafi verið hlutfallið árin á undan og aftur á síðasta ári.

Hrelliklám í staðinn fyrir hefndarklám

Hafa einstaklingar leitað til Stígamóta sérstaklega vegna kláms. Að sögn Guðrúnar eru málin mjög ólík. „Hægt er að nefna að fólki komi hingað vegna klámneyslu maka og líka þegar að konum er ætlað að haga sér í kynlífi eins og klámstjörnur gegn sínum vilja.“

21 einstaklingur leitaði til Stígamóta á síðasta ári vegna kláms, 3 karlar og 18 konur. Eru það 4 fleiri einstaklingar en árið á undan.

Svokallað hefndarklám hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur og mánuði. Er það skilgreint þannig að gerandi taki myndir af brotaþola í kynlífsathöfnum með eða án þeirra vilja og myndunum eða myndböndum annaðhvort dreift eða hótað að þeim verði dreift. Að sögn Guðrúnar er stöðugt meira um hefndarklám og verður það rannsakað sérstaklega í næstu ársskýrslu.

„Þó svo að við höfum ekki gögn um hefndarklám á síðasta ári vitum við að einhver hluti þeirra sem leitaði til okkar vegna kláms á síðasta ári gerði það vegna hefndarkláms. Umræðan er að aukast og það þarf að fara að skrá þetta  og skoða sérstaklega,“ segir Guðrún. „Talað hefur verið um að kalla þetta frekar hrelliklám heldur en hefndarklám. Það hljómar eins og brotaþolinn hafi valdið því að hann eigi eitthvað svona skilið sem á auðvitað ekki við.“

Karlar reiðari eftir kynferðisbrot

Guðrún Jónsdóttir.
Guðrún Jónsdóttir. mbl.is/Golli
Með snjallsímavæðingu varð auðveldara að búa til hefndarklám eða hrelliklám.
Með snjallsímavæðingu varð auðveldara að búa til hefndarklám eða hrelliklám.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert