Lýsing vann mál í Hæstarétti

mbl.is/Eggert

Hæstiréttur Íslands staðfesti á miðvikudag úrskurð héraðsdóms þar sem ekki var fallist á að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar við félagið Leiguvélar ehf. væru lánssamningar með ólögmætu gengisviðmiði.

Ágreiningur félaganna, Lýsingar og Leiguvéla, laut öðrum þræði að því hvort samningarnir teldust hafa verið um leigu eða lán og þar með hvort þeir væru tengdir með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.

Talið var að þeir fjármögnunarleigusamningar, sem um væri deilt í málinu, væru sambærilegir þeim samningum sem fjallað hefði verið um áður í dómum Hæstaréttar.

Í niðurstöðu Hæstaréttar, sem staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans, kom fram að ósannað væri að samið hefði verið um að Leiguvélar myndu eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og lægi því ekki annað fyrir en að á þeim tíma myndi stofnast ótímabundinn leigumáli.

Samkvæmt ákvæðum samninganna hefðu Leiguvélar ekki getað orðið eigandi leigumunanna nema að til frekari samninga kæmi við Lýsingu og með samþykki af hálfu félagsins. Þó svo að slíkt hefði verið gert í einhverjum tilvikum í viðskiptum félaganna, þá gæti það ekki orðið til marks um að slíkt hefði einnig átt við um þá samninga sem hér var deilt um. Var því ekki annað talið leitt í ljós en að samningarnir væru um fjármögnunarleigu.

Féllst Hæstiréttur því á kröfu Lýsingar, rétt eins og héraðsdómur, um að félaginu yrðu með beinni aðfarargerð afhent nánar tilgreind tæki sem Leiguvélar hefðu í sínum vörslum samkvæmt fjármögnunarleigusamningum félaganna tveggja.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert