Ótímabært að leggja fram kröfugerð

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Formaður Sambands íslenskra bankamanna …
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Formaður Sambands íslenskra bankamanna . mbl.is/Þorkell

Formenn aðildarfélaga og stjórn Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) eru sammála um að ótímabært sé við þessar aðstæður að leggja fram kröfugerð í komandi kjaraviðræðum samtakanna við Samtök atvinnulífsins. Ljóst sé að raunverulegar kjaraviðræður fari ekki í gang fyrr en „aðilar ná fram trúnaði og trausti allra þeirra sem að heildarkjaraviðræðum verða að koma,“ eins og segir í frétt á vef SSF.

Formenn aðildarfélaga SSF og stjórn SSF komu saman til fundar í gær en verkefni fundarins var að fara yfir þá erfiðu stöðu sem upp er komin í öllum kjaraviðræðum, jafnt á almennum vinnumarkaði sem þeim opinbera.

Segir í fréttinni að það sé einróma skoðun allra forystumanna stéttarfélaga og talsmanna atvinnurekenda á Íslandi að í raun séu allar viðræður eða umleitanir um sátt á vinnumarkaði tilgangslausar. 

„Himinn og haf skilur á milli krafna stéttarfélaga og hugsanlegs útspils atvinnulífsins. Þar að auki komi engin svör frá ríkisstjórn um skattamál, gjaldskrárbreytingar, atvinnuleysistryggingar, afnám hafta eða önnur atriði sem fulltrúar vinnumarkaðarins hafa beint til stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga.“

Samninganefnd SSF mun áfram vinna að undirbúningi kjaraviðræðna og kalla til formenn áður en formlegar kröfur SSF verða lagðar fyrir viðsemjendur.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri SSF, hefur sagt að áhugi sé á því að semja um styttri vinnuviku í komandi kjarasamningaviðræðum. Vel komi til greina að krefjast þess að hver vinnudagur verði styttur um hálftíma. Samkvæmt núverandi kjarasamningi er hinn almenni dagvinnutími frá klukkan 9 til 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert