Rangt að kalla menn fasista

Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi.
Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur verið haft samband við Félag múslima á Íslandi vegna styrks frá Sádi Arabíu upp á 135 milljónir króna til byggingar mosku hér á landi að sögn Ibrahims Sverris Agnarssonar, formanns félagsins. Hann gerir ráð fyrir að haft verði samband við hann vegna málsins þegar hann snýr heim aftur en hann er staddur í London til þess að afla fjár vegna arkitektasamkeppni um hönnun mosku Félags múslima á Íslandi sem fyrirhugað er að rísi við Sogamýri í Reykjavík.

Nýr sendiherra Sádi Arabíu gagnvart Íslandi, Ibra­him S.I. Ali­bra­him, lýsti því yfir í gær þegar hann afhenti Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, trúnaðarbréf sitt að þarlend stjórnvöld ætluðu að styrkja byggingu mosku á Íslandi um eina milljón Bandaríkjadala eða sem nemur 135 milljónum króna. Mikil umræða hefur skapast í kjölfarið og sagðist Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, til að mynda ætla að óska eftir upplýsingum um það hvernig standa ætti að fjármögnun moskunnar. Salmann Tamimi, fyrrverandi formaður Félags múslima á Íslandi, var ómyrkur í máli og sagði ekki koma til greina að taka við fjármunum frá Sádi Arabíu sem hann kallaði fasistaríki. Ibrahim Sverrir sagði hins vegar málið yrði skoðað ef engir íþyngjandi skilmálar fylgdu styrknum.

Salmann ekki lengur talsmaður félagsins

Ibrahim Sverrir leggur áherslu á að Salmann tali aðeins fyrir eigin hönd enda sé hann ekki lengur talsmaður Félags múslima á Íslandi og hafi enga formlega stöðu innan félagsins. Ef boðinn sé 135 milljóna króna styrkur séu ekki rétt viðbrögð að kalla viðkomandi fasista. Ef hafna á slíku sé rétt að gera það kurteislega. „Við ætlum ekki að láta neina utanaðkomandi aðila stjórna okkur. Það verður ekki. Við erum íslenskt félag eins og kemur fram í reglunum okkar og ætlum að vera það áfram. Því verður ekkert breytt. Salmann nýtur virðingar okkar og við viljum gjarnan hlusta á hann en ef hann fer fram með þessum hætti verður maður að íhuga málið.“

Spurður hvort hann hafi heyrt í sendiherra Sádi Arabíu vegna málsins segir Ibrahim Sverrir svo ekki vera. „Við höfum haft samband við hann áður. En við hófum ekki formlega söfnun fyrir moskunni fyrr en þessi arkitektasamkeppni fór af stað í þessari viku. Það hafa í mesta lagi verið þreifingar. Þess utan rituðum við bréf til utanríkisráðuneytisins í fyrra, sem Salmann vissi af og gott ef hann stakk ekki upp á því, og spurðum með formlegum hætti hvort við mættum taka við peningum frá ríkisstjórnum Sádi Arabíu eða Kúveit. Mjög jákvætt svar kom til baka um að það væri ekkert því til fyrirstöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert