Stjórnvöld virtu ekki skyldu sína

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, gaf á miðvikudag út rökstutt álit vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa ekki virt þá skyldu sína að veita umbeðnar upplýsingar í tveimur málum er varða fæðuöryggi og dýraheilbrigði. Þetta er í fyrsta sinn sem ESA hefur þurft að senda frá sér slíkt álit vegna skorts á samvinnu af hálfu EFTA-ríkis.

Málið lýtur annars vegar að framkvæmd á innleiðingu gerða í flýtimeðferð og hins vegar að tilnefningum á svokölluðum tilvísunarránnsóknarstofum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sendi ESA þrjú bréf í dag þar sem upplýsingar voru veittar í þessum málum auk þess sem ráðuneytið baðst afsökunar á þessum óheppilega drætti á svörum.

Í tilkynningu frá ESA segir að árlega séu haldnir sameiginlegir fundir ESA og íslenskra stjórnvalda til þess að fara yfir stöðu EES mála. Slíkur fundur hafi síðast verið í maí 2014. Fyrir fundinn hafði Ísland ekki svarað beiðnum um upplýsingar í þeim tveimur málum sem álitið fjallar um. Beiðni um upplýsingar var áréttuð skriflega í kjölfar fundarins en svör bárust ekki og var ESA því knúið til að senda íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf í desember í fyrra.

„Fyrra málið varðar þau ferli sem Ísland þarf að tryggja til að EES-gerðir með „einfölduðu ferli“ séu innleiddar tímanlega í landsrétt. Slíkar gerðir varða oft fæðuöryggi og dýrasjúkdóma þar sem brýnt er að öll ríki á Evrópska efnahagssvæðinu grípi til ráðstafana hratt og örugglega því landamæragæsla er ekki milli ríkja. Beiðni ESA til íslenskra stjórnvalda lýtur að því að útskýra til hvaða ráðstafana verður gripið á Íslandi til að koma í veg fyrir þær tafir sem verið hafa á innleiðingu slíkra gerða.  

Seinna málið varðar skyldu ríkja á EES svæðinu til að tilnefna rannsóknarstofur til vísindalegrar ráðgjafar og stuðnings innlendum yfirvöldum, sem hafa eftirlit með dýrasjúkdómum og fæðuöryggi. Á sviði fæðuöryggis þar sem Ísland hefur ekki tilnefnt rannsóknarstofur var beðið um upplýsingar um áform og tímasetningar af Íslands hálfu,“ er jafnframt útskýrt í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert