Endurhannar vinsælustu húfu landsins

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Í tilefni Hönnunarmars hannaði vöruhönnuðurinn Þórunn Árnadóttir nýtt útlit á klassísku húfukollurnar frá 66°Norður. Húfurnar hafa slegið eftirminnilega í gegn á síðustu misserum og hafa fjölmargir landsmenn skartað þeim, en þær hafa verið vinsælar hjá sjómönnum í áratugi.

„Þetta er mjög gaman. Það er ýmislegt skemmtilegt hægt að gera og mér finnst þetta verkefni mjög skemmtilegt,“ segir Þórunn, en hún hefur getið sér gott orð sem vöruhönnuður á undanförnum árum og er þekktust fyrir Pyropet kertið sitt.

Fékk innblástur frá sjómennskunni

Við hönnun á húfukollunni sótti Þórunn meðal annars innblástur í sjóinn, höfnina og Pyropet. Útkoman úr samstarfinu eru þrjár húfukollur sem verða fáanlegar í takmörkuðu magni.

„Þetta eru ekta sjómannahúfur, og þaðan er líka bakgrunnur 66°Norður. Á annarri húfunni fékk ég því innblástur þaðan og frá sjómennskunni yfir höfuð. Sú húfa kemur í tveimur litum og er mynstrið gert úr höfninni, skipum og mávum,“ útskýrir Þórunn.

Þá segir hún hina týpuna af húfunni vera vísun í Pyropet kertin sem hún hefur hannað og eru með beinagrind inni í. „Það er fiskur á kantinum á húfunni og svo ef maður brettir kantinn niður sér maður beinagrind,“ segir hún. 

Snýst um að búa til mynstur

Þórunn segist ekki mikið hafa hannað af flíkum áður, en þó hafi hún aðeins komið inn á það í tengslum við önnur verkefni. „Þetta snýst í raun um að búa til mynstur,“ útskýrir hún. Hún segist þó ekki einskorða sig við eina ákveðna tegund hönnunar, heldur taki hún að sér ýmisleg mismunandi verkefni. „Ég er því voðalega sjaldan að vinna í sama efni og er mikið að gera alls konar,“ segir hún. 

Húfurnar fara í sölu fimmtudaginn 12. mars í verslun 66°Norður í Bankastræti og svo verður sérstök opnun 13. mars á milli kl. 17 og 19 í versluninni í Bankastræti þar sem Þórunn verður á svæðinu.

Facebooksíða Þórunnar Árnadóttur.

Þórunn hannaði þrjár útgáfur af klassísku húfukollunni.
Þórunn hannaði þrjár útgáfur af klassísku húfukollunni. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Klassíska húfukollan sem hefur verið vinsæl síðustu misseri.
Klassíska húfukollan sem hefur verið vinsæl síðustu misseri. Af vef 66°Norður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert