Yfirfull fjöldahjálparmiðstöð

Blint á Holtavörðuheiðinni síðdegis.
Blint á Holtavörðuheiðinni síðdegis. Ljósmynd/Björgvin Páll Hauksson

Tvær fjöldahjálparmiðstöðvar hafa verið opnaðar vegna óveðursins á Norðvesturlandi. Önnur er í Reykjaskóla í Hrútafirði og hin á Laugarbakka í Miðfirði. Reykjaskóli er orðinn yfirfullur og fólki er nú beint í félagsheimilið Ásbyrgi á Laugarbakka. Holtavörðuheiði er enn ófær og lokuð. Björgunarsveitarmenn eru enn að störfum á heiðinn við að koma fólki sem þar situr fast í bílum sínum til byggða. Hér er kort sem sýnir leiðina að Ásbyrgi á Laugarbakka.

Hvammstangadeild Rauða krossins sér um rekstur miðstöðvanna.

Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands segir allt sé orðið fullt út úr dyrum í Reykjaskóla en margir hafa orðið veðurtepptir vegna þess að Holtavörðuheiðin er ófær. 

Enn halda milli 200-300 manns fyrir í Staðarskála.

Björn segir að fólk geti beðið í fjöldahjálparmiðstöðvunum þar til veðrinu slotar. Hann segir vel fara um alla og að boðið verði upp á einhverja hressingu.

Elísa Sverrisdóttir, gjaldgeri Hvammstangadeildar Rauða krossins, segir að fólk hafi tekið að streyma í Reykjaskóla um kl. 18 í dag. Hún segir fara vel um alla en að nú sé orðið fullt í Reykjaskóla og því verði fólk nú að koma í Ásbyrgi á Laugarbakka. Hún segist gera ráð fyrir því að flestir gisti í miðstöðvunum í nótt enda er ekki útlit fyrir að Holtavörðuheiðin verði fær nú í kvöld.

Dregur ekki úr vindi fyrr en eftir miðnætti

Áfram má búast við hvassri suðvestanátt með éljum og skafrenningi um landið vestanvert, og ekki dregur að ráði úr vindi fyrr en eftir miðnætti, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Á Vestfjörðum hvessir og má búast við suðvestan 13-20 m/s með skafrenningi á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum í kvöld. Einnig hvessir á fjallvegum á Norðurlandi, s.s. Þverfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði með skafrenningi í kvöld og nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert