Kom í heiminn í sigurkufli í heimafæðingu

Skútufjölskyldan með nýjasta fjölskyldumeðliminn í Albertshúsi.
Skútufjölskyldan með nýjasta fjölskyldumeðliminn í Albertshúsi. mbl.is

„Þetta var mjög falleg fæðing. Hann fæddist í sigurkufli ofan í lauginni,“ segir Natasha T. González sem fæddi sitt fjórða barn, dreng, 8. mars síðastliðinn í Albertshúsi á Ísafirði. Heilsast þeim vel. Strákurinn kom í heiminn aðfaranótt sunnudags kl. 2:30 en fyrr um daginn hafði Natasha farið í mjög langa fjallgöngu því hún vildi koma fæðingunni af stað. Eiginmaður hennar, Jay, og móðir hennar tóku á móti drengnum sem vó 3.480 g og var 54 sentimetra langur.

Jay og Natasha hafa haft vetursetur með stelpurnar sínar þrjár á seglskútunni Messenger í Reykjavíkurhöfn. Elstu stúlkurnar tvær ganga í Austurbæjarskóla.

Fjölskyldan fékk Albertshús lánað hjá vinafólki sínu til þess eins að koma nýjasta fjölskyldumeðlimnum í heiminn. „Við sáum alltaf fyrir okkur að eignast barnið í litlum bæ eins og Ísafirði, þar sem allt væri rólegt og snjór yfir öllu. Það er gott að komast af bátnum, eiga smá frí með fjölskyldunni og eignast barnið.“

Drengurinn er 26. barnið sem fæðist í Albertshúsi en það síðasta fæddist þar árið 1944. Húsið er í eigu fjölskyldu Herdísar Albertsdóttur (1908-2011) sem bjó þar stærstan hluta ævi sinnar. Herdís aðstoðaði gjarnan konur við fæðingu. Sagðist Natasha hafa fundið vel fyrir þeirri hjálp sjálf.

Drengurinn er annað barn þeirra sem fæðist í svonefndum sigurkufli en þá er fósturhimnan enn utan um barnið þegar það fæðist. Natasha bendir á að samkvæmt þjóðtrú Kostaríku, en sjálf er hún þaðan, þá fylgir sigurkuflinum sá máttur að beri sæfari hluta af honum á sér þá snýr hann alltaf aftur til lands heill á húfi. Þess má geta að samkvæmt íslenskri þjóðtrú verður sá sem fæðist í sigurkufli fyrirtaks lánsmaður.

Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu
Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu
Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu Glaðleg …
Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu Glaðleg og ævintýragjörn fjölskylda hefur komið sér vel fyrir í seglbát sínum við Reykjavíkurhöfn og ætlar að hafa vetursetu mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Yngstu börnin tvö í fjölskyldunni. Drengurinn í fangi systur sinnar …
Yngstu börnin tvö í fjölskyldunni. Drengurinn í fangi systur sinnar Caribe. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert