Hóf ekki rannsókn án heimildar

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, þáverandi staðgengill lögreglustjórans á Suðurnesjum, tilkynnti grun um meint brot lögreglumannsins í hinu svokallaða LÖKE-máli, til ríkissaksóknara í lok nóvember 2013. Ábending um hugsanlegt brot mannsins barst lögreglunni á Suðurnesjum í byrjun september sama ár.

RÚV greinir frá þessu en þetta kemur fram í skriflegu svari ríkissaksóknara við fyrirspurn fréttastofu. Ríkissaksóknari fékk upplýsingar um málið í september, án þess að skrifleg gögn um þær upplýsingar liggi fyrir hjá embættinu.

Alda Hrönn tilkynnti um meint brot mannsins í starfi í nóvember og taldi nauðsynlegt, til að fá skýrari mynd af sakarefninu, að afla frekari gagna frá tölvudeild ríkislögreglustjórans varðandi uppflettingar lögreglumannsins í málaskrá lögreglunnar, LÖKE. Talið var að maðurinn hefði flett upp nöfnum kvenna í málaskránni og deilt upplýsingum um konurnar með tveimur vinum sínum. Upphaflega höfðu þeir allir réttarstöðu sakbornings í málinu.

Niðurstaða ríkissaksóknara var sú að hefja gagnaöflun og var lögreglustjóranum á Suðurnesjum falið að sinna henni, en ríkissaksóknari stjórnaði rannsókninni. Gagna um uppflettingar í LÖKE var aflað með bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum til ríkislögreglustjórans 16.  janúar 2014 og með tölvupóstum 14. og 21. mars sama ár þar sem óskað var frekari upplýsinga. Þau gögn voru send ríkissaksóknara ásamt greinargerð 31. mars 2014.

Lögmaður lögreglumannsins sagði við aðalmeðferð málsins fyrir tæpri viku að ekki hefði verið staðið með eðlilegum hætti að rannsókn málsins hjá lögreglunni á Suðurnesjum og Ríkissaksóknari hafi ekki haft þor til að falla alfarið frá málinu og „rassskella“ þar með lögregluna.

Í frétt RÚV segir að ríkissaksóknari segi gögn ekki gefa til kynna að nokkuð sé hæft í þeim fullyrðingum lögmanns lögreglumannsins að málið hafi verið rannsakað án heimildar af Öldu Hrönn. Í opnu bréfi lögmannsins segir hann að Alda Hrönn hafi hafið einkarannsókn í október 2013 en ekki fengið umboð til rannsóknarinnar fyrr en í apríl 2014.

Ljóst er samkvæmt svari ríkissaksóknara að umboðið fékkst í nóvember 2013. Alda Hrönn hefur hafnað ásökunum lögmannsins, en segist að öðru leyti ekki mega tjá sig efnislega um einstök mál.

Ekki barst formleg kæra til lögreglu vegna meints brots mannsins, en ef grunur er uppi um refsiverða háttsemi lögreglumanns, gilda ákvæði laga um meðferð sakamála sem segir að lögregla skuli hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið, hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki.

Frétt mbl.is: Krefst ekki refsingar í málinu

Aðalmeðferð í LÖKE-málinu fór fram í héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu …
Aðalmeðferð í LÖKE-málinu fór fram í héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert