Telur ríkisstjórnina ekki hafa umboð

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar ekki lýsa …
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar ekki lýsa miklu hugrekki. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar segir í samtali við mbl.is að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi komið sér í opna skjöldu. Hann telur hana ekki hafa umboð til slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið.

„Ég tel að hún hafi ekki stjórnskipunarlegt umboð til þess og heldur ekki lýðræðislegt. Þessir flokkar sögðust ekki ætla að slíta viðræðunum fyrir kosningar og voru ekki kosnir út á það. Ef þeir vilja slíta þá skulu þeir hafa hugrekki til að leggja þá spurningu fyrir þjóðina.

Ef ríkisstjórnin heldur að hún geti slitið viðræðunum svona þá er það ekkert annað en atlaga að stjórnskipuninni, lýðræðinu og þingræðinu í landinu. Það er ekki ríkisstjórnarinnar að slíta viðræðunum. Það var þingið sem ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefja viðræðurnar, og ef það á að slíta þeim þá verður að gera það með ákvörðun þingsins, því þetta er mjög afdrifarík og stór ákvörðun,“ segir Guðmundur.

Munu mótmæla kröftuglega

„Ef ríkisstjórnin telur sig geta tekið ákvörðun í svona stóru máli upp á eigin spýtur og án þess að spyrja þingið og þaðan af síður þjóðina, hvar endar það? Erum við þá að horfa upp á einhvers konar gerræðisskipulag?“

Guðmundur segir að þessari ákvörðun verði mótmælt á Alþingi þegar það kemur saman að nýju. „Þessu verður auðvitað mótmælt kröftuglega, ef ríkisstjórnin heldur þetta virkilega, að viðræðunum sé núna slitið. Mér finnst ákaflega mikilvægt að segja forseta Lettlands, sem stendur hugsanlega í þeirri meiningu að viðræðunum hafi verið slitið, að svo er auðvitað ekki.“

Þykir ekki lýsa miklu hugrekki

Hann segir að tíðindin hafi komið sér í opna skjöldu. „Ég bjóst ekki við því að ríkisstjórnin væri svona óskammfeilin. Og að tala um það að þetta sé eitthvað „sem allir sjái...“ Það voru þúsundir sem mótmæltu á Austurvelli þeirri fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að slíta viðræðunum. Það voru gerðar kannanir sem sýndu að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill ekki slíta viðræðunum,“ rifjar Guðmundur upp. 

„Er allt í einu orðið eitthvað „augljóst“ að viðræðunum skuli slitið? Og að það sé bara gert með einhverju bréfi undir lokun á vinnudegi í nefndarviku þegar þingið er ekki einu sinni í þingsal. Hluti af manni á nú bara erfitt með að taka þetta alvarlega. En ef menn halda að stjórnmál og ákvarðanataka í samfélaginu geti farið svona fram og gengið svona fyrir sig þá er það grafalvarlegt mál. Að gera þetta í nefndarviku þegar þingið er ekki að störfum og getur ekki rætt þetta, það þykir mér ekki lýsa miklu hugrekki.“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert