Fólk ferðist ekki að óþörfu

Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir sunnan 20-30 m/s frá …
Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir sunnan 20-30 m/s frá því snemma á morgun. Ómar Óskarsson

Algjört aftakaveður verður um allt land á morgun, laugardag, og er fólki ráðlagt að ferðast ekki að óþörfu. Veðurstofan spáir roki og ofsaveðri, allt að 30 metra á sekúndu og yfir fimmtíu metra á sekúndu sums staðar í hviðum.

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að veðurspáin fyrir laugardaginn sé með verstu spám sem landsmenn hafa séð í allan vetur. „Þetta fer um allt land. Vindhraðinn í höfuðborginni gæti alveg náð 30 metrum á sekúndu við Kjalarnes og út í efri byggðunum. Það er býsna slæmt.“ 

Það byrjar strax að hvessa hér sunnanlands í fyrramálið. Er búist við stormi allt að 30 m/s og talsverðri rigningu. Hins vegar mun draga úr þessum mikla veðurofsa strax eftir hádegi, en áfram verður bálhvasst á norðan- og austanverðu landinu. Er þar einnig búist við 30 m/s á stöku stað, sannkölluðu ofsaveðri, að sögn Þorsteins. Þar gæti orðið mjög byljótt.

Frétt mbl.is: Með verstu spám sem sést hafa

Hann bendir á að ekkert ferðaveður sé á mestöllu landinu á morgun. Það geti verið óvarlegt að vera á ferli. „Það gengur aðeins niður hér sunnanlands um hádegi. Fólk getur vonandi beðið það af sér. En það er verra með Norður- og Austurlandið, þar sem þetta gæti staðið yfir allan daginn. Það lítur mjög illa út með ferðalög á þeim slóðum á morgun,“ segir hann. Aftakaveður verði á þessum slóðum.

Varað við vatnavöxtum

Veðurhæðinni mun fylgja hlýindi um allt land sem og mikil rigning og snjóleysing sunnan og vestantil. Í veðurhæð sem þessari geta tré rifnað upp með róum og þakplötur fokið. Einnig má búast við grjót- og malarroki.

Einnig er spáð mikilli rigningu sunnan- og suðaustanlands með hlýindum fram á sunnudag. Úrkoman verður aðallega í kringum fjöll og jökla og þar gæti sólarhringsafrennsli, þ.e. samanlögð úrkoma og snjóbráðnun, farið vel yfir 250 mm. 

Þá er varað við vexti í ám í kring um Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnan- og suðaustanverðan Vatnajökul. Búast má við miklum leysingum um allt land þótt úrkoman verði mest sunnan og suðaustanlands. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra bendir jafnframt á að vegna mikilla leysinga geti skapast hætta á vatnsflóðum, votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum víða um land.

Hægt er að fylgj­ast með veður­spánni á veður­vef mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert