Sakar utanríkisráðherra um gerræði

Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/RAX

Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, segir ráðherra ekki geta breytt ákvörðunum Alþingis og það sé andstætt stjórnarskrá. Hann sakar Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra, um gerræði þegar hann sendi ESB bréf um aðildarumsókn Íslands.

„Þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnir aðildarríkjum Evrópusambandsins í gær með formlegum hætti að hann hafi einn og sér í krafti ráðherravalds síns ógilt ákvörðun Alþingis Íslendinga um aðildarumsóknina er það gerræði. Um leið er hann að auglýsa á vettvangi þjóðanna hvernig hann lítilsvirðir löggjafarsamkomu þjóðar sinnar,“ skrifar Þorsteinn í pistli á vefsíðuna Hringbraut.

Öllu máli skipti eftir þennan atburð að þjóðin taki höndum saman um að endurheimta ályktunarvald Alþingis. Hvort sem menn séu hlynntir aðildarviðræðunum eða andvígir þeim geti allir lýðræðissinnar sameinast um að brjóta valdbeitingu utanríkisráðherrans á bak aftur og færa málið inn á Alþingi. 

„Vilji ríkisstjórn með ríflegan meirihluta breyta fyrri ákvörðun Alþings getur hún gert það með því að leggja fram tillögu þar að lútandi á þeim sama vettvangi. Þannig eru leikreglur lýðræðisins. En ráðherra getur ekki svipt Alþingi því ályktunarvaldinu með einu bréfi,“ skrifar Þorsteinn.

Þá vitnar hann til skrifa Eyjunnar sem gerði að því skóna að forseti Íslands hafi lagt á ráðin um þessa aðför að Alþingi. Þorsteinn telur mikilvægt að forsetinn geri hreint fyrir sínum dyrum.

Pistill Þorsteins Pálssonar á vefsíðunni Hringbraut

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert