Samræmist stjórnarskrá

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Ómar Óskarsson

Bréf utanríkisráðherra til Evrópusambandsins um að ekki verði lengur litið á Ísland sem umsóknarríki er í samræmi við stjórnarskrá og því segist Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ekki gera athugasemd við það. Hann vill ekki tjá sig efnislega um hvort að bréfið jafngildi afturköllun aðildarumsóknarinnar. 

Forseti Alþingis fundaði með þingsflokksformönnum í morgun og hafnaði kröfu stjórnarandstöðunnar um að þingfundur yrði haldinn vegna málsins í dag.

„Í ljósi þess að það eru augljóslega skiptar skoðanir um hvað hið umtalaða bréf utanríkisráðherra til Evrópusambandsins feli nákvæmlega í sér taldi ég einfaldlega að það þjónaði ekki tilgangi að slíkar umræður færu fram án viðveru utanríkisráðherra sem gæti miklu betur skýrt þessi mál þannig að ekkert færi á milli mála,“ segir Einar.

Þess vegna hafi ekki verið skynsamlegt að þessi þingfundur færi fram í dag. Einar segist þó leggja mikla áherslu á að umræða um málið geti farið fram sem allra fyrst og utanríkisráðherra hafi brugðist vel við því. Næsti þingfundur sé á mánudag og gerir Einar ráð fyrir að málið verði til umræðu þá.

Einar hafnaði einnig kröfu stjórnarandstöðunnar um að senda bréf til Evrópusambandsins um að þingsályktunartillaga um umsókn Íslands væri enn í gildi þrátt fyrir bréf utanríkisráðherra. Hann hafi ekki talið ástæðu til þess að senda bréf til sambandsins með sjónarmiðum um gildi þingsályktunartillagna.

Bréfið árétting á stöðu undanfarinna ára

Þegar rætt var um að slíta viðræðunum segist Einar hafa verið þeirrar skoðunar, og sé enn, að þannig mál þurfi að koma fyrir þingið í formi þingmáls. Bréf utanríkisráðherra sé hins vegar annars konar nálgun á málið.

„Utanríkisráðherra skrifar þetta bréf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar sem borin er fram sú ósk að Íslendingar verði ekki lengur á lista yfir umsóknarþjóðir. Að mínu mati gegnir þar öðru máli um og þess vegna stenst það alveg út frá stjórnskipulegum sjónarmiðum að þetta bréf sé skrifað með þessum hætti en að sjálfsögðu þarf Alþingi að ræða það mál og komast til botns í því með einhverjum hætti með umræðum og í nefndarstarfi,“ segir Einar.

Kjarni málsins er að mati Einars sá að engar viðræður hafa staðið yfir undanfarin ár og Ísland hafi þar með ekki verið í neinu umsóknarferli hjá Evrópusambandinu. Bréfið sé árétting á því. Hann vill hins vegar ekki tjá sig efnislega um hvort að bréf utanríkisráðherra jafngildi afturköllun aðildarumsóknarinnar.

„Eins og þetta horfir við þinginu þá tel ég að þessi aðferð sem þarna er boðuð sé í samræmi við stjórnskipunarreglur og því geri ég ekki athugasemdir við það,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert