Fékk brottvísun af heimili sínu og nálgunarbann

Það er öfugsnúið að brotaþoli þurfi að flýja eigið heimili.
Það er öfugsnúið að brotaþoli þurfi að flýja eigið heimili. mbl.is/Rax

Fjögur heimilisofbeldismál komu inn á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðustu helgi en í einu málanna var lögregla aftur kölluð til vegna ofbeldis rúmum sólarhring síðar. Í því tilviki fékk gerandinn bæði brottvísun af heimili og nálgunarbann vegna málsins.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir brottvísun frá heimili mikilvæga leið til þess að tryggja öryggi fórnarlambsins.

„Það er öfugsnúið að brotaþoli þurfi að flýja eigið heimili,“ segir Alda og vísar til úrræða á við Kvennaathvarfið og Kristínarhúss Stígamóta.

„Þetta er eins og ef einhver myndi ræna búð og að á meðan að ránið væri rannsakað væri eigandanum vísað úr búðinni en ræningjanum leyft að vera eftir inni.“

Ekki meira ofbeldi þótt málum fjölgi

Undanfarið hefur lögreglan lagt aukna áherslu á aðgerðir gegn heimilisofbeldi og notast hefur verið við ný úrræði, svo sem að fá aðila á vettvang sem veitt geta þolendum andlegan stuðning.

„Við leggjum meiri mannafla og styrk í útköllin sjálf og í öllum þessum tilvikum komu annað hvort barnavernd eða félagsþjónustan á vettvang eða bæði. Með því erum við að fá miklu betri yfirsýn og miklu betri tækifæri til þess að geta beitt þessum úrræðum af því að þolandinn, og eftir atvikum gerandinn, er að fá stuðning,“ segir Alda Hrönn.

Aukin áhersla lögreglu á málaflokkinn er tiltölulega nýtilkomin en Alda segir strax merkjanlegan mun frá því sem áður var. „Málunum hefur fjölgað og að hluta til er það vegna bættrar skráningar í kerfin hjá okkur, vegna aukinnar vitundar og betra utanumhaldi. Hinsvegar erum við að fá fleiri tilkynningar og fólk er að leita til okkar í meira mæli en áður,“ segir Alda. „Ég tel ekki að það sé meira um heimilisofbeldi heldur er fólk duglegra við að kalla til lögreglu og er meðvitaðra.“

Alda segir þá sem tilkynna ofbeldið vera allt frá fórnarlömbunum sjálfum yfir í ættingja eða jafnvel nágranna og að hennar tilfinning sé sú að mest aukning hafi verið í tilkynningum frá síðastnefnda hópnum.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri LRH.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri LRH. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert