„Gunnar Bragi fullkomlega úti að aka“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við munum hafa stöðugt samband áfram við alla sem við höfum aðgang að innan Evrópusambandsins til þess að koma réttum staðreyndum á framfæri. Það er lýðræðisleg skylda okkar,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is. 

Stjórnarandstöðuflokkarnir funduðu í morgun vegna þeirrar ákvörðunar rík­is­stjórn­ar­inn­ar að taka ekki upp aðild­ar­viðræður við ESB. Sem kunn­ugt er af­henti Gunn­ar Bragi Sveins­son ut­an­rík­is­ráðherra full­trú­um sam­bands­ins bréf á fimmtu­dag­inn sl. þar sem seg­ir að rík­is­stjórn­in hafi samþykkt að hún hygg­ist ekki taka upp aðild­ar­viðræður við ESB á ný. 

Í kjölfarið sendu formenn stjórnarandstöðuflokkanna sameiginlegt bréf til ESB þar sem lýst er afstöðu þeirra til ákvörðunarinnar, og að ríkisstjórnin hafi hvorki umboð þings né þjóðar til að breyta stöðu Íslands gagnvart sambandinu. Árni Páll segir engin formleg viðbrögð hafa borist frá ESB, en stjórnarandstaðan verði áfram í þéttu samráði vegna málsins.

„Við erum núna að standa vörð um stöðu þingsins og virðingu fyrir skuldbindingagildi þingsályktana og áhersla okkar í dag mun vera á það. Við tökum svo skrefin áfram eftir því sem aðstæður bjóða upp á á næstu dögum,“ segir Árni Páll.

Segir Gunnar Braga hafa gerst sekan um lögbrot

Í aðsendri grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag segir hann stjórnarandstöðuna skrumskæla stöðu aðildarumsóknirnar í bréfinu til ESB, og fara þar með rangfærslur. Árni Páll vísar þessu á bug, og segir Gunnar Braga „fullkomlega úti að aka“ í lögfræðilegum greiningum á málinu.

„Það er ekkert í þessum pistli annað en hártoganir um það að þingsályktanir gildi ekki nema fram að kosningum sem stenst ekki á nokkurn hátt. Þá er þarna að finna afsakanir hans og furðulegir orðaklækir til þess að reyna að afsaka það augljósa lögbrot sem hann hefur gerst sekur um: að bera þetta bréf ekki undir utanríkismálanefnd Alþingis eins og gera á með allar meiriháttar ákvarðanir í utanríkismálum,“ segir Árni Páll. 

„Annað hvort er þetta ekki meiriháttar ákvörðun í utanríkismálum og hefur þá engin áhrif, eða þetta er lögbrot. Hann verður að velja annað hvort,“ bætir hann við og segir það ekki rétt að stjórnarandstaðan hafi á einhvern hátt stöðvað framgang þessa máls í fyrra, heldur hafi það verið stjórnarmeirihluti sem treysti sér ekki til að afgreiða tillöguna út úr utanríkismálanefnd.

Yfirveguð tilraun til að komast framhjá þinginu

„Þetta bréf er yfirveguð tilraun ríkisstjórnarinnar til að komast framhjá þinginu í máli sem þingið hefur þegar markað stefnu í og það er brot á grundvallarreglu þingræðis. Ég er sammála bæði formanni utanríkismálanefndar og forseta þingsins í því að þingsályktunin frá 2009 er í fullu gildi,“ segir Árni Páll.

Þá segir hann þingsályktanir á sviði utanríkismála hafa skuldbundið þingið þar til það breyti þeim, og það sé því ekki þannig að þær falli úr gildi við kosningar. Þegar nýr þingmeirihluti myndist beri þeim meirihluta að breyta samþykktinni sem fyrir er. „Það hefur ekki verið gert í þessu efni. Það hefur verið boðað af hálfu ríkisstjórnarinnar að það verði gert en ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að leggja slíka tillögu á ný fyrir þingið.“

Þingfundur á Alþingi fer fram klukkan 15 í dag, og má búast við því að málið verði rætt í þinginu. „Það má búast við umræðum um þetta mál í dag enda búið að vega að grundvallarstoð þingræðis í landinu og það væri annað hvort að þingmenn létu til sín taka við þær aðstæður þegar þeir loksins fá aðgang að ræðustól alþingis.“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert