Mikil mildi að ekki varð mannskætt slys

Ljóst er að hér hafa menn teflt á tæpasta vað.
Ljóst er að hér hafa menn teflt á tæpasta vað. mynd/Umhverfisstofnun

Mikið er um að ferðamenn virði merkingar og öryggisbönd að vettugi við Gullfoss. Neðri stígurinn að Gullfossi er lokaður á veturna en stöðugur úði frá fossinum gerir stíginn varasamann. Þá er hætta á grjóthruni úr klettunum fyrir ofan stíginn og eykst slík hætta í umhleypingum, líkt og þeim sem hafa verið í vetur. 

Greint er frá þessu á vef Umhverfisstofnunar. 

Þar segir ennfremur, að algengt sé að fólk hætti sér niður stíginn þrátt fyrir viðvaranir og lokanir.

„Því miður er slík hegðun fordæmisgefandi og hvetur aðra gesti svæðisins til sömu hegðunar. Ekki þarf að nefna að hundruðir ferðamanna, jafvel þúsundir, heimsækja Gullfoss daglega yfir vetrartímann. Um leið og einn leggur leið sína niður stíginn er hætt á að stöðug umferð skapist þar niður það sem eftir líður degi. 

Því var það mikið áhyggjuefni þegar nokkrir ferðamenn hundsuðu lokun á neðri stíginum og í ofanálag fóru út af stígnum og gengu út á íshengju sem hallar nokkra metra fram af klettabrúnni sjálfri. Á stuttum tíma höfðu fjölmargir elt fótsporin og skilið allt svæðið eftir úttraðkað, alla leið út á ystu nöf. Mikil mildi var að ekki varð mannskætt slys vegna þessa athæfis,“ segir á vef stofnunarinnar.

Þá segir, að svæðið hafi verið girt af eftir þetta og stígnum lokað á tveimur stöðum til viðbótar. Þó hafi ekkert verið hægt að gera við þeim fjölda fótspora sem höfðu myndast og freistuðu fleiri ferðamanna, nema að bíða eftir nýföllnum snjó.

„Samtakamáttur ferðaleiðsögumanna sem aðstoðuðu landvörð við eftirlit á neðra svæðinu við Gullfoss átti sinn þátt í að koma í veg fyrir að þarna yrði stórslys,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.

Stígur út á snjóhengjuna hafði myndast.
Stígur út á snjóhengjuna hafði myndast. mynd/Umhverfisstofnun
mynd/Umhverfisstofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert