Reginmunur á bréfinu og tillögunni

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reginmunur er á bréfi ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins um að umsóknarferlinu að sambandinu verði ekki haldið áfram og Ísland sé ekki lengur umsóknarríki og þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem lögð var fram á Alþingi fyrir ári um að umsóknin yrði kölluð til baka. Þetta sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í skýrslu sem hann flutti þingmönnum í dag um ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Einar sagði þingsályktun frá 2009 um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið vera í fullu gildi enda fæli ákvörðun ríkisstjórnarinnar ekki í sér að svo væri ekki. Það væri Alþingis að ákveða framhald hennar. Hins vegar væru fá dæmi um að þingsályktanir væru felldar úr gildi. Þingsályktunin frá 2009 hefði stuðst við pólitískan stuðning þáverandi þingmeirihluta. Þingsályktanir hefðu ekki lagalegt gildi heldur fælu þær í sér pólitískan vilja þingsins hverju sinni.

Vísaði Einar í skýrslu sem skrifstofa Alþingis hefði unnið haustið 2013 að hans beiðni um gildi þingsályktana. Þar kæmi fram að ráðherrum bæri að upplýsa Alþingi ef ekki stæði til að fylgja eftir þingsályktunum en þess í stað innleiða nýja eða breytta stefnu. Þá annað hvort með skýrslu eða með samþykkt nýrrar þingsályktunartillögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert