Samráð óþarft vegna bréfsins

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir afturköllun umsóknar Íslands að Evrópusambandinu, vera byggða á mjög traustum stjórnskipulegum grunni. Hann segir stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa verið ljósa og að ríkisstjórnarflokkarnir hafi fengið skýrt brautargengi í síðustu kosningum.

Þetta kom fram í munnlegri skýrslu utanríkisráðherra um Evrópumál á þingfundi í dag. Sagði Gunnar Bragi það vera skyldu ríkisstjórnarinnar að fylgja eftir vilja þjóðarinnar og að það hefði ekki samræmst stjórnskipulagi hefði núverandi ríkisstjórn fylgt eftir stefnu fyrri ríkisstjórnar þegar vilji þjóðarinnar er annar og vísaði hann þar til niðurstöður þingkosninga 2013.

Kallað eftir bréfinu af hálfu Evrópusambandsins

Utanríkisráðherra vék máli sínu að umboði ríkisstjórnarinnar og benti hann á hvernig fyrri ríkisstjórn setti hlé á aðildarviðræður Íslands að ESB án samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis og eins með Líbýumálið svokallaða. Hann segir Evrópusambandið hafa kallað eftir bréfi þar sem skýrri afstöðu núverandi ríkisstjórnar yrði lýst gagnvart inngöngu í sambandið.

Í bréfinu kom fram að engar áætlanir hafi verið uppi meðal núverandi ríkisstjórnar um áframhald aðildarviðræðna og að því ætti ekki að líta á Ísland áfram sem umsóknarríki. Hann segir ríkisstjórnir framtíðarinnar geta endurvakið málið síðar og það sé Evrópusambandsins að leggja línurnar um hvernig staðið skuli að slíkum málum, komi til þeirra.

Þá sagðist hann vilja efla samstarf Íslands og Evrópusambandsins enn frekar á sameiginlegum grunni Íslands og sambandsins, og bætti hann við að fulltrúar Evrópusambandsins beri fulla virðingu fyrir skoðun ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert