Fjarstýrt, pappírslaust og upphitað

Fljótt á litið lítur salernið út fyrir að vera hefðbundið.
Fljótt á litið lítur salernið út fyrir að vera hefðbundið. mbl.is/Eggert

Pappírslaus viðskipti hafa verið stunduð um hríð, en líkega hafa pappírslaus salerni ekki náð jafnmikilli útbreiðslu. Nú býður hreinlætistækjaverslunin Ísleifur Jónsson slíkan grip til sölu og er salernið þeim kostum búið að sá sem það notar þarf ekki að nota salernispappír er hann hefur gengið örna sinna.

Volgar vatnsbunur sem berast úr stútum sjá um að skola þá líkamsparta sem þurfa hreinsunar við. Með því sparast kaup á salernispappír og hreinlæti er talsvert meira, að sögn verslunarstjóra. Þá eru ótalin þau umhverfisvænu áhrif sem minni pappírsnotkun hefur í för með sér.

Umrætt salerni heitir Senso Wash, það er hannað af franska hönnuðinum Philippe Starck og framleitt hjá þýska fyrirtækinu Duravit. Það hefur verið til sölu hjá Ísleifi Jónssyni um skeið og að sögn Lárusar Einars Huldarssonar, verslunarstjóra þar, á þessi tækni rætur að rekja til Japans, þar sem notkun slíkra salerna er nokkuð útbreidd.

„Þetta virkar í stuttu máli þannig að þegar klósettferðinni er lokið er ýtt á fjarstýringu. Þá koma stútar fram undan setunni og sprauta vatni. Það er hægt að forstilla hitann og kraftinn á vatninu og einnig hvert bunan beinist, t.d. er hægt að velja dömu- og herrastillingar,“ segir Lárus. „Í framhaldinu er svo hægt að stilla á blástur ef fólk vill.“ Þessu til viðbótar er seta salernisins upphituð.

Spurður í hverju helstu kostir salernisins felist segir Lárus þá marga, sá helsti sé að því fylgi talsvert meira hreinlæti en þeim hefðbundnu. „Þetta þrífur betur en pappírinn. Svo minnkar pappírsnotkunin.“ Hann segir þó allan gang á því hvort þeir sem noti gripinn sleppi því að nota salernispappír, það sé ákvörðun hvers og eins.

Margskonar aukabúnaður

Salerni af þessari gerð er til afnota fyrir viðskiptavini Ísleifs Jónssonar og að sögn Lárusar nýtur það töluverðrar hylli og fýsir marga að prófa það. „Það er til í dæminu að fólk geri sér ferð hingað til að gera stykkin sín. Margir vilja prófa þetta og það eru allir velkomnir.“

Grunnverð á Senso Wash-salerni er 320.000 krónur. Við það er hægt að bæta ýmsum aukabúnaði, allt eftir smekk og þörfum hvers og eins; t.d. nuddi, næturlýsingu og sjálfvirkri lokun.

Er lokinu er lyft kemur í ljós vatnsstútur sem skolar …
Er lokinu er lyft kemur í ljós vatnsstútur sem skolar þá líkamsparta sem þurfa þess við að salernisferð lokinni. Hægt er að stilla hitastig og kraft vatnsbununnar. mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert