Ísland enn á lista yfir umsóknarríki

Skjáskot

Evrópusambandið hefur ekki tekið Ísland af lista sínum yfir umsóknarríki ef marka má vefsíður sambandsins. Þar er Ísland enn skráð eins og áður.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra óskaði formlega eftir því við Evrópusambandið í síðustu viku fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að Ísland yrði ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki að sambandinu enda liti stjórnin svo á að landið væri ekki lengur umsóknarríki. Í því fólst meðal annars að vefsíðum Evrópusambandsins væri breytt til samræmis við það.

Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands sem fer með forsætið í ráðherraráði Evrópusambandsins um þessar mundir, sagði á blaðamannafundi í Brussel í gær að bréf Gunnars Braga hefði verið kynnt í ráðinu og tekið til skoðunar en ekki stæði til að ræða þau sérstaklega. Ísland yrði að ákveða hver staða þess væri gagnvart sambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert