Lögreglumaðurinn aftur til starfa

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglumaður, sem ákærður var í svonefndu LÖKE-máli og síðan sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, hefur snúið aftur til starfa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestir lögmaður hans, Garðar St. Ólafsson, í samtali við mbl.is. Líklega mun lögreglumaðurinn taka sína fyrstu vakt eftir að hafa snúið aftur til starfa á laugardaginn.

Lögreglumaðurinn var ákærður fyrir meintar ólögmætar uppflettingar á nöfnum fjölda kvenna í mála­skrár­kerfi rík­is­lög­reglu­stjóra, LÖKE. Tveir aðrir höfðu upphaflega stöðu grunaðra en málin gegn þeim voru felld niður síðasta sumar. Lögreglumaðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa greint nánum vini sínum frá því á samskiptavefnum Facebook að hann hefði verið skallaður. Taldi saksóknari að um trúnaðarbrot væri að ræða þar sem atburðurinn tengdist lögreglumáli.

Fyrsti ákæruliðurinn, sem sneri að uppflettingum í mála­skrár­kerfi rík­is­lög­reglu­stjóra, var dreginn til baka fyrr í þessum mánuði en síðari liðnum haldið til streitu. Lögreglumaðurinn var síðan sem fyrr segir sýknaður af honum í gær. Garðar staðfestir að skjólstæðingur sinn hafi í hyggju að fara fram á skaðabætur vegna málsins. Rætt verði fyrst við innanríkisráðuneytið vegna málsins en skili það ekki árangri verði málið sótt fyrir dómstólum.

Einnig verður farið fram á rannsókn á embættisfærslum Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, þáverandi staðgengils lögreglustjórans á Suðurnesjum, við rannsókn málsins. Lögð verði fram kæra þess efnis til ráðuneytisins. Bæði Alda og embætti ríkissaksóknara hafa hafnað því að staðið hafi verið að rannsókninni með óeðlilegum hætti. Garðar segir að mennirnir tveir sem einnig höfðu stöðu grunaðra í málinu hafi sömuleiðis í hyggju að sækja rétt sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert