Miklar skemmdir í eldsvoða

Miklar skemmdir urðu á garðyrkjustöðinni Brúnalaug í Eyjafirði í eldsvoða í nótt, að sögn lögreglunnar á Akureyri.

Lögregla og slökkvilið á Akureyri voru kölluð út um tvö leytið í nótt vegna elds í garðyrkjustöðinni. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en ljóst að tjónið er mjög mikið. Ekki liggur fyrir hvers vegna kviknaði í en vitað hvar eldurinn byrjaði, að sögn lögreglu. 

Hversu mikið tjónið er kemur ekki í ljós fyrr en síðar í dag þegar fer að birta en mjög miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Akureyrar voru slökkviliðsmenn á frívakt boðaðir auk þess sem aðstoð fékkst frá slökkviliðið Akureyrarflugvallar. Einnig var óskað eftir aðstoð Dalbjargar við verðmætabjörgun að slökkvistarfi loknu en ljóst er að eignatjón er umtalsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert