„Eigum ekki að hræðast breytingar“

Sigríður Ingibjörg keppir við Árna Pál Árnason um formannsstólinn.
Sigríður Ingibjörg keppir við Árna Pál Árnason um formannsstólinn. mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir ákvað klukkan fimm í dag að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Hún segir að flokkurinn hafi ekki náð sér á strik eftir kosningar og geti auðveldlega náð í fylgi - það hafi sannast í borginni.

„Þetta er lítill fyrirvari en nægur,“ segir Sigríður en aðalfundur Samfylkingarinnar fer fram um helgina. Sigríður segir að það hafi verið pressað á hana úr ýmsum áttum að sækast eftir formannsembættinu. „Ég væri nú ekki að þessu annars. Ég ákvað þetta klukkan fimm að láta slag standa. En ákvörðunin á sér töluverðan aðdraganda því fólk hefur verið að hafa samband og símtölunum fjölgað undanfarna daga.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir í ræðustól.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir í ræðustól. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hún segir að fólki finnist doði yfir Samfylkingunni. „Fólk sem ég hef talað við finnst doði yfir flokknum og það er eðlilegt að í stjórnmálaflokki sem er lýðræðisleg stofnun að þar sé notast við leikreglur lýðræðisins.“

Aðspurð hvort hún og Árni Páll sem nú gegnir formannsembættinu séu ólíkir stjórnmálamenn segir hún að þau séu bæði jafnaðarmenn en með ólíkar áherslur. „Við erum félagar við Árni Páll en ég vil að við skerpum á þessi klassísku mál eins og kjara- og húsnæðismál. En líka að við opnum svolítið faðminn sem nútímalegur jafnaðarflokkur. Leggjum áherslu á lýðræðis- og réttlætismálin.“

Í síðustu könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 13. til 18. mars, og birtist í dag mælist fylgi Samfylkingarinnar nú 15,5% en flokkurinn hefur ekki verið að skora hátt í könnunum. Sigríður segir að hún telji að flokkurinn hafi ekki náð sér á strik eftir kosningar. „Við sáum það í borginni í fyrra að Samfylkingin var sterk þar þannig við höfum fylgi að sækja. Þess vegna er ég að bjóða mig fram því ég tel að við eigum ekki að vera hrædd við að gera breytingar ef við teljum að það geti aukið fylgi okkar þannig að jafnaðarstefnan verði sterkari og við komumst í aðstöðu til að móta framtíðina.“

Sigríður Ingibjörg.
Sigríður Ingibjörg.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert