„Þarf að vanda mig í framhaldinu“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég neita því ekki að þetta er ekki óskaniðurstaða,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is spurður um niðurstöðu formannskjörsins á landsfundi flokksins þar sem einu atkvæði munaði á honum og mótframbjóðanda hans, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur alþingismanni.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við greiðum atkvæði á landsfundi með þessum hætti þar sem allir eru í kjöri. Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af því sérkenni Samfylkingarinnar að kjósa formann í beinni kosningu. Ég hef talið það flokknum mjög til styrkleika og tekið eftir því að aðrir forystumenn í íslenskum stjórnmálum hafa öfundað mig af því skýra umboði sem ég fékk í allsherjaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum síðan. En þetta eru leikreglurnar og við erum að vinna eftir þeim. Ég kvarta ekki yfir leikreglunum og hef aldrei gert,“ segir hann.

Spurður um það hvort niðurstaðan sé ekki áfall fyrir hann segir Árni Páll: „Þessi niðurstaða leggur mér mjög ríkar skyldur á herðar og ég þarf að vanda mig mjög vel í framhaldinu. Ég hef enga sérstaka gagnrýni heyrt á mín störf frá því að þetta mótframboð kom fram. Ég hef heyrt almenn orð en ég hef enga beina gagnrýni heyrt hvað ég hefði átt að gera öðruvísi eða eitthvað slíkt. En ég tek auðvitað allri slíkri gagnrýni ef hún kemur fram.“

Ljóst sé að niðurstaðan sé til vitnis um að landsfundarfulltrúar hafi deildar meiningar um forystuna. „Það er alveg augljóst mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert