Upptaka evru besta leiðin

Nauðsynlegt er að afnema gjaldeyrishöft til að halda stórum alþjóðlegum fyrirtækjum í landinu og búa betur að þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem geta sótt sér fjármagn erlendis. Besta leiðin til þess er innganga í Evrópusambandið og upptaka evru.

Þetta kemur fram í tillögu að stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar sem settur var fyrr í dag.

Uppnámið sem skapast hefur um framtíð Íslands innan Evrópu stefnir tækifærum allra í hættu. Farsæl Evrópusamvinna er ein forsenda þess að hér þróist öflugur vinnumarkaður og að kjör launþega batni. Þjóðin á að fá tækifæri strax til að ákveða framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið,“ segir í tillögunni.

Kemur jafnframt fram að ríkisstjórnin þurfi að virða þær meginreglur sem Alþingi markar með lögum og þingsályktunum en ganga ekki fram í blóra við þær eins og gert hefur verið við meðferð aðildarumsóknar og Rammaáætlunar. „Við viljum auka áhrif almennings á ákvarðanatöku hins opinbera. Styrkja þarf faglega stjórnsýslu og verja hana fyrir pólitískum afskiptum,“ segir í tillögunni. 

Aðstæður atvinnulausra, öryrkja og aldraðra óásættanlegar

Kemur jafnframt fram að stærsta velferðarmál samtímans eru húsnæðismál. „Fjöldi fólks getur ekki keypt sína fyrstu íbúð og skortur er á leiguhúsnæði og það er fokdýrt. Bráðaaðgerðir eru því nauðsynlegar. Auka þarf án tafar framboð á leiguhúsnæði, halda aftur af hækkun leiguverðs, hækka húsaleigubætur og gera fyrstu kaupendum og tekjulágum mögulegt að fjármagna sína fyrstu íbúð. Flýta þarf uppbyggingu íbúða fyrir aldraða. Aðstæður atvinnulausra, öryrkja og aldraðra eru óásættanlegar. Við þurfum að tryggja öllum mannsæmandi framfærslu og tækifæri til að vera þátttakendur í samfélaginu,“ segir í tillögunni. 

Þarf að skapa svigrúm til launahækkanna

Kemur jafnframt fram að nauðsynlegt sé að lækka tryggingagjald sem leggst á launaútgjöld fyrirtækja. „ Þannig skapast svigrúm til að hækka laun og ráða fleira fólk,“ segir í tillögunni. 

Er jafnframt nefnt að auka þurfi tekjur samfélagsins af nýtingu sameiginlegra auðlinda og nýta þær til að byggja upp innviði og atvinnulíf um allt land og létta skattbyrði af almennu launafólki.

„Framundan eru harðar kjaradeilur á vinnumarkaði. Brýnt er að vinna aftur traust milli launþega, vinnuveitenda og ríkisvalds. Koma þarf á víðtæku, formlegu samráði þessara aðila um ákvarðanir sem varða kaupmátt og lífskjör almennings, húsnæðismál, skattbreytingar, peningastefnu og lykilstefnu í ríkisfjármálum. Slíkt samstarf er besta leiðin til þess að bæta kjör, vinna gegn misskiptingu og komast hjá uppnámi og óvissu á vinnumarkaði. Efla þarf nýsköpun í íslensku atvinnulífi til að það standi undir væntingum fólks um góð störf. Auka þarf stuðning við sprota-, lítil og millistór fyrirtæki.“

Lækka kostnað við dagvistun og stytta vinnuviku

Jafnframt þarf að lækka greiðslur almennings fyrir heilbrigðisþjónustu, sjá til réttar til menntunar og bæta kjör og stöðu barnafjölskyldna samkvæmt tillögunni. Lækka þarf kostnað við dagvistun um leið og aðgengi er bætt, auka þarf húsnæðisöryggi, og stytta vinnuviku.

Er þar að auki lögð áhersla á nauðsyn þess að berjast gegn sérhagsmunum og frændhygli sem hefur haft skaðleg áhrif á íslenskt samfélag „alltof lengi,“ eins og fram kemur í tillögunni. Þarf jafnframt að breyta stjórnarskránni í samræmi við staðfestan þjóðarvilja. 

„Með jöfnuð, frelsi og réttlæti að leiðarljósi byggjum við upp samfélag til framtíðar,“ segir í tillögunni. 

Hægt er að lesa tillöguna í heild sinni hér.

Von á niðurstöðum klukkan 19.00

Landsfundur Samfylkingarinnar stendur yfir í dag og á morgun á Hótel Sögu í Reykjavík. Eflaust eru margir spenntir yfir formannskjöri á milli þeirra Árna Páls Árnasonar, núverandi formanns og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingkonu. Kosning hefst kl. 17.30 en von er á niðurstöðu úr formannskjörinu um klukkan 19.00 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert