„Við getum ekki bara beðið“

Árni Páll við setningu fundarins fyrr í dag.
Árni Páll við setningu fundarins fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, boðaði róttæktar breytingar á húsnæðiskerfinu í setningaræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. Hækka þarf húsaleigubætur, fjölga íbúðum til leigu og draga úr háu leiguverði. 

Hærri húsaleigubætur, fleiri íbúðir og lægra verð

 „Mikilvægast af öllu eru húsnæðismálin. Ég boða róttækar breytinga á húsnæðiskerfinu. Við leggjum fyrir þennan fund heildstæðar úrbótatillögur. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert í þessum málum. Dagur er byrjaður að auka framboð af leiguíbúðum í Reykjavík. En sú uppbygging mun taka mikinn tíma. Við getum ekki bara beðið. Ríkið verður að spila með,“ sagði Árni í dag.

Að mati Árna þarf að hækka húsaleigubætur, fjölga íbúðum til leigu og draga úr svimandi háu leiguverði. „Þess vegna þurfa leigutekjur af einni íbúð að vera skattfrjálsar fyrir einstaklinga, en því aðeins að leiga sé ekki yfir meðalverði,“ sagði Árni. „Við þurfum að þróa kerfi viðbótarlána til að gera ungu fólki og tekjulágum fjölskyldum kleift að kaupa sína fyrstu íbúð. Samfylkingin ætlar að tryggja öllum húsnæði á sanngjörnum kjörum.“

Samskipti við vinnumarkaðinn í uppnámi

Í ræðu sinni sagði Árni að ríkisstjórnin sé búin að koma samskiptum við aðila vinnumarkaðarins í uppnám.

„Svar okkar verður að vera að leiða nýtt samtal við aðila vinnumarkaðarins. Norræna samfélagsmódelið hefur aftur og aftur sýnt að það getur betur glímt við bæði uppsveiflu og samdrátt en önnur kerfi. Til þessa að það virki þarf ábyrga hagstjórn, sem byggir á stöðugleika, góðum aðgangi að erlendum mörkuðum og samræmda launastefnu sem ýtir undir hagvöxt og fulla atvinnu og dregur úr launamun og tryggir að enginn verði skilinn eftir,“ sagði Árni og bætti við að það þyrfti umfangsmikil velferðarkerfi, sem byggja á afkomutryggingu og aðgengi að þjónustu sem tryggir mikla atvinnuþátttöku og hreyfanleika launafólks, ódýra menntun og heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem fjármögnuð er með sköttum og tryggir jafnrétti í reynd. „Og það þarf vel skipulagðan vinnumarkað, sem byggir á samspili milli lagasetningar og kjarasamninga,“ sagði formaðurinn.

Munu setja sér almenna efnahagsstefnu

Lagði hann áherslu á að ekkert í þessu væri sjálfgefið og að allt byggi þetta á samspili á milli stjórnmálaflokkanna og samtaka á vinnumarkaði. „Allir þurfa að hafa næg áhrif, breidd og umboð til að leita eftir heildarlausnum og fylgja eftir þeim aðgerðum sem þörf er á,“ sagði Árni.

„Við munum setja okkur almenna efnahagsstefnu með þessi markmið að leiðarljósi og leggja hana fyrir samráðsvettvang með aðilum vinnumarkaðarins. Að því loknu eigum við að leggja hana fyrir Alþingi og byggja hagstjórnina á víðtækri stefnumörkun til nokkurra ára í senn. Þannig bindum við vissulega okkur sjálf, en við leggjum grunn að stöðugleika til lengri tíma og náum hámarks ávinningi fyrir fólkið í landinu,“ sagði Árni.

 „Það er margt sem bendir til þess að samfélagið sé orðið kalt og grimmt. Að við gefum ekki fólki færi á að lifa lífinu með reisn. Hugmynd jafnaðarstefnunnar er að fólk njóti þeirra mannréttinda að geta orðið fyrir áföllum. Að þurfa ekki að glata öllu. Við viljum búa í góðu samfélagi sem skapar öllum rúm. Vandinn í hnotskurn er ófullnægjandi bótakerfi sem tryggir ekki lífeyrisþegum fullnægjandi framfærslu,“ sagði Árni að lokum. 

Formannskjör hefst 17:30

Lands­fund­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar stend­ur yfir í dag og á morg­un á Hót­el Sögu í Reykja­vík. Ef­laust eru marg­ir spennt­ir yfir for­manns­kjöri á milli þeirra Árna Páls Árna­son­ar, nú­ver­andi for­manns og Sig­ríðar Ingi­bjarg­ar Inga­dótt­ur, þing­konu. Kosn­ing hefst kl. 17.30 en von er á niður­stöðu úr for­manns­kjör­inu um klukk­an 19.00 í kvöld.

Í framboðsræðu sinni fyrr í dag sagði Sigríður Ingibjörg að Sam­fylk­ing­in væri ekki að ná eyr­um kjós­enda og að það þurfi að taka áhersl­ur og mál­flutn­ing flokks­ins til end­ur­skoðunar.

„Við erum ekki að ná eyr­um kjós­enda, þrátt fyr­ir að við völd sé óvin­sæl og ósvíf­in hægri­stjórn. Áhersl­ur flokks­ins og mál­flutn­ing þarf því að taka til end­ur­skoðunar. Sam­fylk­ing­in á ekki að vera flokk­ur verðtrygg­ing­ar og banka í hug­um fólks, eða staðnaður kerf­is­flokk­ur sem skil­ur ekki áhyggj­ur venju­legs fólks. Við vit­um að við erum ekki slík­ur flokk­ur en við verðum að tryggja að al­menn­ing­ur viti það líka,“ sagði þingkonan í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert